Curry og félagar máttu þola tap

Danilo Gallinari leikmaður Denver Nuggets, t.v. fer framhjá Andre Iguodala ...
Danilo Gallinari leikmaður Denver Nuggets, t.v. fer framhjá Andre Iguodala liðsmanni Golden State í leik liðanna í gærkvöldi. Gallinari lék stórthlutverk í sigri heimamanna. AFP

Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors töpuðu í gærkvöldi þriðja leiknum á tímabilinu í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðs Denver Nuggets mörðu sigur á þeim, 112:110, í Denver í hnífjöfnum leik þar sem úrslitin réðust á síðustu sekúndu. 

Danilo Gallinari skoraði 28 stig fyrir Denver. Hann vann boltann þegar 10 sekúndur voru til leiksloka. Honum brást síðan bogalistinn í öðru vítaskoti sínu þegar 3,1 sekúnda var eftir. Leikmenn Warriors geystust í sókn þar sem Klay Thompson gerði örvæntingarfulla tilraun til að jafna metin. Skot hans geigaði og heimamenn fögnuðu sinum 15. sigri á leiktíðinni í 39 leikjum. Þetta var hinsvegar þriðja tap Warriors í 39 leikjum. 

Í tilefni sigurs Denver hefur verið rifjað upp á árið 1996 batt liðið enda á 18 leikja sigurgöngu Chicago Bulls sem var afar sigursælt um þær mundir og vann t.d. 72 af 82 leikjum sínum á þeirri leiktíð. 

Stephen Curry skoraði 38 stig fyrir Warriors og var stigahæstur eins og stundum áður. Harrison Barnes var næstur með 18 stig og Thompson var með 17. 

Tíu leikir voru á dagskrá NBA-deildarinnar í gærkvöldi og í nótt. Úrslit þeirra voru eftirfarandi:

Charlotte - Atlanta 107:84
Washington - Milwaukee 106:101
Brooklyn - New York Knicks 110:104
Boston - Indiana 103:94
Houston - Minnesota 107:104
Oklahoma - Dallas 108:89
Denver - Golden State 112:110
Portland - Utah Jazz 99:85
Sacramento - New Orleans 97:109
LA Clippers - Miami Heat 104:90

mbl.is