Ísland er númer tólf og ellefu komast á EM

Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson á EM í Berlín.
Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson á EM í Berlín. AFP

Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki á föstudaginn þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik, en lokakeppnin fer fram í fjórum löndum árið 2017.

Ísland komst sem kunnugt er í fyrsta skipti í lokakeppnina á síðasta ári og lék þá í sterkum riðli í Berlín. Þrettán sætum í lokakeppninni hefur verið ráðstafað en ellefu eru enn laus og um þau verður spilað í undankeppninni. Þar verða 27 þjóðir dregnar í sjö riðla, eitt úr hverjum styrkleikaflokki. Fjórar þjóðir verða í sex riðlanna og þrjár í þeim sjöunda.

Sigurliðin í riðlunum sjö komast í lokakeppnina ásamt þeim fjórum liðum af sjö sem ná bestum árangri í öðru sæti. Það verða því mótherjarnir úr þriðja og fjórða flokki sem skipta mestu máli, og að hagstæð úrslit náist í flestum eða öllum leikjum gegn þeim.

Flokkarnir eru svona, innan sviga eru sæti viðkomandi liða í úrslitakeppni EM síðasta haust:

1. flokkur:

Pólland (11), Slóvenía (12), Belgía (13), Georgía (15), Rússland (17), Þýskaland (18), Makedónía (19).

2. flokkur:

Eistland (20), Holland (21), Úkraína (22), Bosnía (23), Ísland (24), Ungverjaland, Svartfjallaland.

3. flokkur:

Austurríki, Svíþjóð, Hvíta-Rússland, Sviss, Búlgaría, Bretland, Slóvakía,

4. flokkur:

Portúgal, Danmörk, Lúxemborg, Kýpur, Albanía, Kósóvó.

Eins og sjá má á þessu er Ísland talið vera fimmta sterkasta liðið í öðrum flokki og þar með númer tólf af þeim sem eru í undankeppninni.

Gestgjafarnir fjórir í lokakeppninni eru Ísrael (10), Tyrkland (14), Finnland (16) og Rúmenía sem fara þar af leiðandi beint á EM, og þá eru Spánn (1), Litháen (2), Frakkland (3), Serbía (4), Grikkland (5), Ítalía (6), Tékkland (7), Lettland (8) og Króatía (9) búin að tryggja sér sæti í lokakeppninni. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert