San Antonio bætir við sig manni

Kevin Martin #23 í leik með Minnesota Timberwolves
Kevin Martin #23 í leik með Minnesota Timberwolves AFP

San Antonio Spurs hefur bætt við sig bakverði en liðið þykir líklegt til að berjast um NBA-titilinn og státar af betri árangri til þessa á tímabilinu en nokkurn tíma áður í sögu félagsins. 

Bakvörðurinn Kevin Martin fékk sig lausan frá Minnesota Timberwolves og gat valið úr nokkrum liðum. Valdi hann San Antonio fram yfir Oklahoma og fleiri öflug lið sem höfðu áhuga. 

Martin er 33 ára og hefur átt ágætan feril í NBA en átti erfitt uppdráttar hjá Minnesota á þessu tímabili. Á ferlinum hefur hann skorað rúm 17 stig að meðaltali í leik og hittni hans í þriggja stiga skotum er 38%. 

San Antonio hefur unnið 52 leiki á tímabilinu en aðeins tapað 9. Hefur liðið aldrei fyrr náð slíku vinningshlutfalli sem dugir þó einungis í annað sætið á vesturströndinni eins og er því fyrir ofan eru meistararnir í Golden State Warriors. Forráðamönnum San Antonio virðist því hafa fundist þörf á því að bæta við sig manni sem myndi gera sóknarleikinn enn betri. 

mbl.is