Munum stefna á þann fjórða í röð

Finnur Freyr Stefánsson hefur fært KR Íslandsmeistarabikarinn öll þrjú ár ...
Finnur Freyr Stefánsson hefur fært KR Íslandsmeistarabikarinn öll þrjú ár sín sem þjálfari karlaliðsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Finnur sem allt vinnur.“ Þannig má alveg lýsa Finni Frey Stefánssyni sem gert hefur karlalið KR að Íslandsmeistara öll þrjú keppnistímabil sín sem þjálfari liðsins. Hann var útnefndur besti þjálfari Dominos-deildar karla á lokahófi KKÍ í dag.

„Þessi tímabil eiga öll sinn sess hjá manni á mismunandi hátt,“ sagði Finnur þegar Mbl.is ræddi við hann í dag, að lokinni verðlaunaafhendingu í Ægisgarði. „Fyrsti titillinn var hrikalega sætur af því að hann var sá fyrsti. Með öðrum titlinum náðum við að „bakka upp“ það sem við gerðum fyrsta árið, og nú náðum við þeim þriðja í röð sem skráir liðið í sögubækurnar. Það var ákveðin „mótivering“ fyrir okkur þegar leið á tímabilið, þannig að þessi titill var aðeins meira en bara „titillinn 2016“,“ sagði Finnur, en þjálfarinn hlýtur að eiga stóran þátt í því að stýra hugarfari leikmanna í rétta átt að þremur Íslandsmeistaratitlum í röð, eða hvað?

Með frábært fólk í kringum mig

„Við fundum leiðir til að „mótivera“ okkur. Þessi titill var hrikalega erfiður og það er alltaf erfitt að vinna hann. Það er sama hvað maður tekur sér fyrir hendur í lífinu, maður þarf alltaf að finna leiðir til að halda sér ferskum og „mótiveruðum“. Mér fannst við gera það á ýmsa leið. Það eru ýmsir samverkandi þættir sem gera það að verkum. Maður þarf að vera með góðan leikmannahóp, góða stjórn og gott fólk í kringum sig. Ég er blessunarlega með frábært fólk í mínum aðstoðarþjálfurum, sjúkraþjálfurum og stuðningsfólki, og svo kem ég auðvitað sjálfur með eitthvað að borðinu. En ástæðan fyrir velgengninni er samspil margra ólíkra þátta,“ sagði Finnur.

Þrír í röð! Finnur fagnar þriðja Íslandsmeistaratitlinum sem KR landaði ...
Þrír í röð! Finnur fagnar þriðja Íslandsmeistaratitlinum sem KR landaði með sigri á Haukum í úrslitaeinvíginu. mbl.is/Árni Sæberg

Stefnan verður sett á fjórða í röð

Þjálfarinn hefur engan áhuga á að fara að hætta að landa titlum núna og stefnan er sett á þann fjórða í röð næsta vetur:

„Við förum inn í nýtt tímabil til þess að vinna. Þegar við mætum í haust og allt fer í gang þá verður markmið okkar alveg skýrt. Það eru komnir þrír titlar núna, við njótum þess og slökum á, og svo þurfum við að huga að næsta tímabili, en það starf er auðvitað þegar farið í gang. Svo þegar veturinn hefst stefnum við á fjórða titilinn í röð,“ sagði Finnur. Þegar er ljóst að Helgi Már Magnússon spilar ekki aftur með KR næsta vetur, og óvíst er að Michael Craion verði áfram.

Craion horfir til „hlýrri staða“

„Við búum vel að drengjum í liðinu sem hafa fengið minni athygli. Þar má nefna Björn [Kristjánsson], Snorra [Hrafnkelsson] og Þóri [Guðmund Þorbjarnarson], auk þess sem við eigum mjög öflugan strák í Villa [Vilhjálmi Kára Jenssyni] sem spilaði mjög vel á undirbúningstímabilinu og á fyrir höndum mikilvægt sumar. Þó að við viljum styrkja okkur, ég tala nú ekki um ef við ætlum í Evrópukeppni á næsta ári, þá höfum við að sama skapi efniviðinn í KR og það hefur verið okkar stíll í gegnum árin að treysta á innviðina í bland við rétta aðila,“ sagði Finnur.

„Ég held að Pavel, Darri og Brynjar séu allir samningsbundnir, og það er kjarni sem við byggjum á áfram. Michael Craion er meira spurningamerki. Hann hefur sínar væntingar og vonir um að komast í stærri deild, eftir fjögur frábær ár hérna, og ég skil það. Ferillinn hjá leikmönnum er ekkert langur og eðlilega kemur að því að hann vilji prófa eitthvað nýtt, eða fara til hlýrri staða eins og hann segir sjálfur. Við sjáum til þegar líður á sumarið en það er klárlega áhugi af okkar hálfu til þess að halda manninum, enda er hann búinn að smella frábærlega inn í það sem við höfum verið að gera,“ sagði Finnur.

mbl.is