Fjölgar í efstu deild kvenna – Njarðvík tekur sæti

Snæfell er ríkjandi Íslandsmeistari.
Snæfell er ríkjandi Íslandsmeistari. mbl.is/Eggert

Fjölgað verður í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili, en síðasta vetur voru sjö lið í deildinni. Þau verða nú átta og leikin fjórföld umferð sem endar á fjögurra liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

Til stóð að átta lið yrðu í deildinni á síðasta tímabili, en KR dró sig til baka skömmu fyrir mót og spilaði í 1. deild kvenna í staðinn. Þá var ákveðið að ekkert lið félli úr deildinni og sigurvegari 1. deildarinnar myndi bætast í hópinn að ári og verða þá áttunda liðið.

Skallagrímur tryggði sér sæti í efstu deild eftir umspil við KR í vor, en forráðamenn Hamars tilkynntu KKÍ hins vegar að liðið myndi ekki taka sæti í deildinni að ári heldur spila í 1. deild. Þá var uppi sú staða að aftur yrði sjö liða deild.

Njarðvík var í kjölfarið borið sæti í efstu deild fyrir helgi, en Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti það við mbl.is í dag og að Njarðvík hafi þegið boðið.

Því verða átta lið í deildinni á næsta tímabili: Grindavík, Haukar, Keflavík, Njarðvík, Skallagrímur, Snæfell, Stjarnan og Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert