Möguleikarnir á að komast á EM

Á morgun ræðst hvort Íslandi tekst aftur að komast á …
Á morgun ræðst hvort Íslandi tekst aftur að komast á EM karla í körfubolta. Liðið lék í fyrsta sinn í lokakeppninni í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland á ágæta möguleika á að komast í lokakeppni EM karla í körfubolta, en úrslitin ráðast á morgun. Ísland mætir Belgíu í Laugardalshöll kl. 16 en Kýpur tekur á móti Sviss í hinum lokaleik A-riðils.

Ísland er öruggt um að lenda í 2. sæti riðilsins, og spurningin er bara sú hvort liðið nær nægilega góðum árangri gegn liðunum sem enda í 1. og 3. sæti til að komast áfram.

Leikið er í sjö undanriðlum og komast fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti áfram í lokakeppnina. Ísland þarf því að enda með betri árangur en lið úr þremur riðlum.

Miklu máli gæti skipt fyrir Ísland að Kýpur vinni Sviss, því þá mun tap Íslands gegn Sviss ytra ekki telja því Sviss hafnar þá í 4. sæti. Ísland vann báða leiki sína við Kýpur. Fjórir möguleikar eru í boði fyrir Ísland:

A) Ísland vinnur Belgíu og Kýpur vinnur Sviss.
Þá yrði Ísland öruggt um sæti á EM.

B) Ísland vinnur Belgíu en Kýpur tapar gegn Sviss.
Þá yrði Ísland með 6 stig úr leikjum við Belgíu og Sviss, og stigamuninn -2, plús stigin sem liðið ynni Belgíu með. Ísland væri þá öruggt um betri árangur en liðið úr C-riðli, þyrfti fjögurra stiga sigur til að vera örugglega ofar en lið úr D-riðli (liðið í 2. sæti þar verður með stigamun á bilinu -2 til +1), og þyrfti að treysta á að Slóvenía ynni Úkraínu í E-riðli (Úkraína er fyrir leikina með 10 stigum betri stigatölu en Ísland, og því þyrfti 10 stiga sveiflu samtals í leikjum liðanna).

C) Ísland tapar gegn Belgíu og Kýpur vinnur Sviss.
Þá yrði Ísland með 6 stig og stigamuninn +18, að frádregnu tapinu gegn Sviss. Tuttugu stiga tap Íslands myndi þýða að draumurinn væri úti, en annars er hugsanlegt að liðið yrði fyrir ofan lið úr C-, D- og E-riðli, eins og segir hér að ofan. Ísland væri öruggt um að enda fyrir ofan C-liðið, mætti tapa með 16 stigum og yrði samt fyrir ofan D-liðið, og þyrfti að treysta á að sigur Slóveníu á Úkraínu í E-riðli yrði ekki 10 stigum minni en sigur Belgíu á Íslandi.

D) Ísland tapar gegn Belgíu og Kýpur tapar gegn Sviss.
Þá yrði Ísland úr leik.

Í leiðum B) og C) verður að hafa í huga að Ísland gæti einnig endað fyrir ofan liðið úr B-riðli. Þar mætast Þýskaland og Holland í lokaleik og endar annað liðið í 2. sæti með á bilinu 15-32 stig í plús, mínus tapið úr leiknum.

Nánar er hægt að lesa um stöðuna í ítarlegri samantekt KKÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert