Stefán Karel ætlar að feta í fótspor föður síns

Stefán Karel Torfason í leik með Snæfelli.
Stefán Karel Torfason í leik með Snæfelli. mbl.is/Árni Sæberg

Stefán Karel Torfason, leikmaður ÍR í Dominos-deild karla í körfuknattleik, hefur ákveðið að snúa sér að kraftlyftingum en það var staðfest á dögunum að hann þyrfti að leggja körfuboltaskó sína á hilluna að læknisráði.

„Þeir sögðu við mig að nú væri ég búinn að fá heilahristing 4 sinnum og ef ég myndi fá eitt höfuðhögg í viðbót gæti ég misst eitthvað meira en körfubolta,“ sagði Stefán við kaffid.is, sem fékk höfuðhögg í leik gegn sínum gömlu félögum í Snæfelli fyrir um mánuði.

„Það er svakalegur dagamunur á mér. Ég er enn með höfuðverk og almennan slappleika og það er voða skrýtið að lýsa þessu. Það mun taka tíma að ná sér að fullu,“ sagði Stefán, sem er aðeins 22 ára gamall. Hann mun reyna að hjálpa ÍR-ingum af varamannabekknum þó að hann sé hættur að spila.

Stefán segist ætla að færa sig út í kraftlyftingar þar sem hann geti ekki stigið alfarið út úr íþróttaheiminum. Lyftingarnar ættu sömuleiðis að vera honum í blóð bornar, en faðir hans er Torfi Ólafsson sem er víðfrægur í heimi kraftlyftinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert