Gunnhildur og Martin best

Gunnhildur og Martin.
Gunnhildur og Martin. Ljósmynd/KKÍ

Gunnhildur Gunnarsdóttir og Martin Hermannsson hafa verið valin körfuknattleiksfólk ársins 2016 af KKÍ. Þetta er í 20. skipti sem valið er tvískipt karla og kvenna eða frá árinu 1998.

Körfuknattleikskona ársins 2016

1.Gunnhildur Gunnarsdóttir

2. Helena Sverrisdóttir

3. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir

Gunnhildur Gunnarsdóttir – Snæfell

Gunnhildur er einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins og með óbilandi baráttu og dugnaði er hún ómissandi leikmaður bæði með landsliðinu og félagsliði sínu. Gunnhildur var fyrirliði og lykilleikmaður Snæfells á síðastliðnu tímabili þar sem liðið vann tvöfalt, varð bikar- og Íslandsmeistari. Liðið vann bikarinn í fyrsta sinn í sögu Snæfells og Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð. Þá var Gunnhildur ofarlega á tölfræðilistum deildarinnar í helstu tölfræðiþáttum á síðastliðnu tímabili og í úrvalsliði ársins á lokahófi KKÍ auk þess að hún var kjörin „varnarmaður ársins“ í deildinni. Á þessu tímabili hefur Gunnhildur byrjað vel í deildinni hér heima og er meðal bestu íslensku leikmanna deildarinnar í öllum tölfræðiþáttum. Gunnhildur hefur leikið alla landsleiki íslenska liðsins frá árinu 2012, eða 27 leiki samtals.

Körfuknattleikskarl ársins 2016

1. Martin Hermannsson

2. Jón Arnór Stefánsson

3. Hlynur Bæringsson

Martin Hermannsson – Étoile de Charleville-Mézéres (Frakklandi)

Martin er orðin einn af betri leikmönnum íslenska landsliðsins á sínu 22. aldursári og einn af framtíðarburðarásum landsliðsins. Martin lék á síðasta tímabili í LIU Brooklyn-háskólanum í NCAA-háskóladeildinni í Bandaríkjunum þar sem hann hlaut viðurkenningar fyrir sína frammistöðu bæði tímabilin sín í skólanum. Í sumar lék Martin alla leiki íslenska landsliðsins í undirbúningi sumarsins og undankeppni EM, þar sem Martin var einn af betri leikmönnum liðsins og hjálpaði því að tryggja sér sæti á lokamóti EM, EuroBasket 2107, í annað sinn í sögu KKÍ og annað sinn í röð. Martin fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína með landsliðinu í undankeppninni og var meðal efstu íslensku leikmannanna í stigaskori, stoðsendingum og framlagi að henni lokinni. Í haust ákvað Martin að halda til Frakklands og gerast atvinnumaður. Á tímabilinu til þessa í Frakklandi hefur liði hans, Étoile de Charleville-Mézéres, gengið mjög vel og er í öðru sæti deildarinnar. Martin hefur ítrekað verið valinn besti maður leiksins í sigurleikjum liðsins og er einn besti leikmaður liðsins og vinsæll meðal stuðningsmanna þess.

mbl.is