Datt út í miðri setningu

Guðbjörg Sverrisdóttir
Guðbjörg Sverrisdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleikskonan Guðbjörg Sverrisdóttir úr Val gekk í gegnum einkennilegt tímabil síðasta vetur þar sem ýmislegt benti til einhvers konar heilsubrests.

Eftir nokkur atvik, sem varla geta talist eðlileg hjá konu á þrítugsaldri í góðu líkamlegu ásigkomulagi, kom hins vegar ekkert út úr ítarlegum rannsóknum lækna og nú um það bil ári seinna virðist ekkert ama að Guðbjörgu.

Hún segist fyrst hafa fundið fyrir örum hjartslætti fyrir um tveimur árum. „Hjartslátturinn varð svo hraður að ég átti erfitt með að ná andanum. Þá hafði ekkert annað gerst og þá vissi ég ekki til þess að neitt væri að. Þetta gerðist tvisvar á sex mánaða tímabili en um leið og ég hætti áreynslu þá lagaðist hjartslátturinn. Síðasta vetur gerðist atvik inni í búningsklefa. Þá var Ari þjálfari að ræða við okkur eftir leik gegn Keflavík. Þá datt ég einhvern veginn út og get bara lýst því þannig að bæði brjóstið og höfuðið varð mjög þungt. Sjúkraþjálfarinn okkar náði blóði upp í haus með því að nudda hálsæðarnar. Það virkaði og að þessu loknu sagði ég mömmu frá atvikinu.

Við fjölskyldan vorum því næst að borða saman og þá fann ég þetta gerast aftur en í þetta skiptið leið ég út af og mamma greip mig áður en ég datt í gólfið. Ég var þó ekki meðvitundarlaus og öll viðbrögð voru svona 15 sekúndum hægari en venjulega. Þá fór ég með sjúkrabíl upp á spítala.“

Þannig lýsir Guðbjörg alvarlegasta atvikinu en á spítalanum gekk þetta ástand yfir og þá vissi hún ekki alveg hvernig hún átti að taka því. „Þegar ég var aftur komin í lag, án þess að neitt sérstakt hefði verið gert fyrir mig, þá fannst mér þetta vandræðalegt. En þá gerðist þetta aftur og ég datt út í miðri setningu þegar ég var að tala við Helenu systur mína. Í raun voru þetta því þrjú atvik. Hið fyrsta stóð stutt yfir en hin tvö stóðu lengur yfir.“

Sjá allt viðtalið við Guðbjörgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »