Danero Thomas á förum frá Þór?

Danero Thomas er á förum frá Þór Akureyri samkvæmt heimildum …
Danero Thomas er á förum frá Þór Akureyri samkvæmt heimildum mbl.is. Skapti Hallgrímsson

Samkvæmt heimildum mbl.is er körfuknattleiksmaðurinn Danero Thomas á leiðinni frá Þór á Akureyri þar sem hann er ósáttur við spiltíma sinn hjá liðinu. 

Thomas var allt annað en sáttur við að spila einungis 20 mínútur gegn Tindastóli á fimmtudag og var hann ekki með Þórsurum í 13 stiga tapinu gegn Grindavík, í átta liða úrslitum Maltbikarsins í kvöld. 

Bakvörðurinn hefur leikið hér á landi síðan árið 2013 er hann gekk til liðs við KR og er ekki talinn lengur sem erlendur leikmaður hér á landi. Thomas hefur einnig spilað með Val, Hamri, Fjölni og svo loks Þór Akureyri, þar sem hann er á sínu öðru ári og átti hann stóran þátt í að Akureyringar tryggðu sér sæti í úrvalsdeildinni á síðasta ári.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, vildi lítið tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði til hans í kvöld. Hann staðfesti þó að staða Thomas væri óljós í augnablikinu. 

Eins og áður segir féllu Þórsarar úr leik í Maltbikarnum í kvöld og var Benedikt, eins og gefur að skilja, svekktur með leik sinna manna. Þór skoraði aðeins 61 stig í leiknum. 

„Við vorum virkilega slakir sóknarlega, þetta er ekkert sem við erum að skora. Við erum að spila okkar leik og gera það sem við leggjum upp með en það gekk gekk illa að koma tuðrunni ofan í körfuna. Það er gríðarlega leiðinlegt að falla úr leik. Við vorum að koma okkur í kjörstöður hvað eftir annað en þetta var ekki okkar dagur,“ sagði Benedikt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert