Dulur þjálfari með óvenjulegan bakgrunn

Pétur Guðmundsson og Ásgeir Sigurvinsson þegar þeir voru teknir inn …
Pétur Guðmundsson og Ásgeir Sigurvinsson þegar þeir voru teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þjálfarinn sigursæli Gregg Popovich sló á dögunum met í NBA-deildinni, en enginn hefur unnið jafn marga leiki í deildinni sem þjálfari sama liðsins. Popovich sló met Jerry Sloan fyrrverandi þjálfara Utah Jazz þegar hann stýrði San Antonio Spurs til sigurs í 1.128. skipti í deildinni.

Popovich er goðsögn í lifanda lífi, en einungis fjórir aðrir þjálfarar hafa náð að vinna fimm NBA-titla. Alls hafa níu þjálfarar náð meira en 1.000 sigurleikjum í deildinni. Popovich deilir einnig meti með Phil Jackson, en þeir hafa náð betra en 50% vinningshlutfalli tuttugu tímabil í röð.

Leiðir Popovich og Íslendingsins Péturs Guðmundssonar lágu saman í NBA-deildinni tímabilið 1988-1989, sem var síðasta tímabil Péturs í NBA. Popovich var þá aðstoðarþjálfari hjá San Antonio, sem Pétur lék með tvö keppnistímabil.

„Það vissi enginn hver hann var,“ svarar Pétur þegar blaðamaður spyr hvort Popovich hafi á þessum tíma þótt efnilegur þjálfari. „Málið var að hann kom frá 3. deildarliði í Kaliforníu í háskólaboltanum. Mjög góður akademískur skóli sem heitir Pomona en er 3. deildarlið í körfunni. Þetta var fyrsta árið hjá Larry Brown hjá San Antonio og hann náði í Gregg. Þetta var nánast í fyrsta skipti sem þjálfarar í NBA voru með heilt teymi í kringum sig en áður höfðu menn verið með einn eða tvo aðstoðarþjálfara. Brown var nýbúinn að gera Kansas að meisturum í háskólaboltanum, NCAA, og fékk með sér Gregg, Ed Manning (föður Danny Manning), Alvin Gentry og R.C. Buford sem er núverandi framkvæmdastjóri San Antonio Spurs. Ég held að enginn hafi fyrr verið með fjóra aðstoðarþjálfara í deildinni. Þótt Gregg hafi verið þjálfari í háskólaboltanum þá vissi enginn hver hann var, þar sem hann hafði lítið afrekað þar.“

Sjá allt viðtalið við Pétur Guðmundsson í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert