Þórsarar jöfnuðu einvígið

Mikið mæðir á þeim Tobin Carberry og Lewis Clinch í …
Mikið mæðir á þeim Tobin Carberry og Lewis Clinch í liðum Þórs og Grindavíkur. mbl.is/Golli

Þór Þorlákshöfn jafnaði einvígið við Grindavík í 8 liða úrslitunum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik þegar liðið hafði betur í öðrum leik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld, 90:86.

Leikurinn var gríðarlega hraður í byrjun þar sem liðin skiptust á að skora. Hægt og bítandi fór stemningin hins vegar að færast til Þórsara, þrátt fyrir að Tobin Carberry hafi haft hægt um sig í upphafi leiks. Heimamenn voru sex stigum yfir eftir fyrsta hluta, 25:19, en Carberry hafði þá bara skorað tvö stig.

Hann reis hins vegar upp í öðrum hluta og samhliða því bættu Þórsarar við forskot sitt. Þeir voru mest 16 stigum yfir í öðrum hluta, 44:28, áður en Grindvíkingar bitu frá sér. Staðan í hálfleik var engu að síður vænleg fyrir Þórsara, 52:40.

Grindvíkingar voru mun líflegri eftir hlé og voru fljótir að ógna forskoti Þórsara. Þeir náðu þó aldrei að jafna metin en spilamennska þeirra batnaði mikið. Carberry hélt áfram sínum ham hjá Þórsurum, sem voru með sex stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 73:67.

Grindvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann á þristi sem gaf tóninn fyrir æsispennandi lokamínúturnar. Grindvíkingar komust hins vegar ekki nær en þessi þrjú stig þrátt fyrir mikla baráttu, en Þórsarar gáfu ekki frekari færi á sér og fóru að lokum með sigur af hólmi 90:86, þar sem úrslitin réðust á vítalínunni.

Tobin Carberry var stigahæstur hjá Þór með 30 stig, en hjá Grindavík skoraði Dagur Kár Jónsson 20 stig.

Staðan í einvíginu er nú 1:1 en næsti leikur fer fram í Grindavík á miðvikudagskvöldið. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Þór Þ. 90:86 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert