Þriggja leikja bann Fjölnismanns

Fjölnismenn, gulklæddir, eru í umspili um sæti í úrvalsdeildinni.
Fjölnismenn, gulklæddir, eru í umspili um sæti í úrvalsdeildinni. mbl.is/Eggert

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Marques Oliver sem leikur með Fjölni hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann af aganefnd KKÍ, eftir að hafa verið rekinn út úr húsi í þriðja sinn á skömmum tíma. Þetta kemur fram í úrskurði aganefndarinnar.

Oliver kom til Fjölnis eftir áramótin og er annar Bandaríkjamaðurinn sem leikur með liðinu í 1. deildinni en hinn er Collin Pryor. Þeir hafa því verið inná til skiptis og Oliver leikið heldur meira og verið mjög áberandi í leikjum liðsins sem nú er í umspili gegn Hamri þar sem staðan er 1:1 og þriðji leikur liðanna í kvöld.

Oliver skoraði 17 stig og tók 13 fráköst á 22 mínútum þegar Fjölnir vann fyrsta leik liðanna, 88:76. Í leik númer tvö í Hveragerði, þar sem Hamar vann 114:110 eftir framlengingu, var Oliver rekinn úr húsi en hann hafði þá skoraði 18 stig og tekið 14 fráköst á 27 mínútum.

Oliver mun ekki spila meira með Fjölni í þessu einvígi liðanna. Liðin mætast í Grafarvogi í kvöld og aftur í Hveragerði á föstudagskvöld. Komi til oddaleiks lýkur Oliver að taka út bannið þar en komist Fjölnir áfram eftir fjóra leiki verður hann í banni í fyrsta leik úrslitarimmunnar  gegn Val eða Breiðabliki þar sem leikið verður um sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is