Breiðablik upp í úrvalsdeild

Breiðablik tryggði sér sæti í Dominos-deild kvenna í kvöld með miklum seiglusigri gegn Þór á Akureyri.

Um hreinan úrslitaleik var að ræða þar sem hvort lið hafði unnið einn leik. Blikar héldu Þór í 42 stigum og unnu að lokum 56:42.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og á köflum líktist hann grísk-rómveskri glímu þar sem leikmenn kútveltust um gólfið í slagsmálum um boltann.

Blikar byrjuðu leikinn mun betur og komust í 13:5. Eftir það gekk ekkert hjá þeim að skora og engin stig komu í sjö mínútur.

Þór skoraði fimmtán stig í röð og snemma í 2. leikhlutanum var staðan 20:13 fyrir Þór. Þá tók við rúmlega fimm mínútna stigaþurrð hjá Þór og aftur fengu Blikar byr í seglin.

Með Isabellu Ósk Sigurðardóttur og Sóllilju Bjarnadóttur í fararbroddi sigu Blikarnir fram úr og þær grænklæddu leiddu í hálfleik 29:26.

Blikar héldu uppteknum hætti í þriðja leikhlutanum og komust mest í níu stiga forskot, 42:33. Eftir það var aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna en sóknarleikur Þórs var ekki burðugur og skotnýtingin afleit.

Besti maður vallarins var Isabella Ósk Sigurðardóttir en hún skoraði 21 stig og tók 18 fráköst fyrir Blika.

Þór Ak. 42:56 Breiðablik opna loka
99. mín. skorar
mbl.is