Magnús Bracey áfram í Val

Austin Magnús Bracey
Austin Magnús Bracey mbl.is/Golli /

Allt útlit er fyrir að Austin Magnús Bracey, lykilmaður í liði Vals, leiki áfram með liðinu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik á næstu leiktíð. 

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, tjáði mbl.is í gærkvöldi að málið væri frágengið þegar hann var spurður út í leikmannamálin en Valur tryggði sér í gærkvöldi sæti í efstu deild á ný. 

„Staðan á leikmannahópnum er þannig að flestir eru ánægðir og vilja vera áfram en við höfum ekki farið ítarlega í þá vinnu. En við vitum að Austin ætlar að vera áfram. Búið er að ganga frá því,“ sagði Ágúst Björgvinsson. 

Austin Magnús er 26 ára og er Valsliðinu mikilvægur. Hann gerði til að mynda 33 stig í oddaleiknum á móti Hamri og rúm 19 stig að meðaltali í vetur. Hann gerði 16 stig að meðaltali í efstu deild í fyrra fyrir Snæfell. 

mbl.is