Erfiðara þegar árunum fjölgar

Justin Shouse.
Justin Shouse. mb.is/Árni Sæberg

Einhver litríkasti persónuleiki í körfuboltanum hérlendis síðasta áratuginn eða svo, Justin Shouse, hefur ákveðið að láta staðar numið sem leikmaður.

Shouse tilkynnti um ákvörðun sína á Facebook á miðvikudagskvöldið og hafði Morgunblaðið samband við leikstjórnandann í gær. Hann segist hafa rætt þessa ákvörðun við sína nánustu í febrúar.

„Ég settist niður með fjölskyldunni í febrúar og þá var þessi ákvörðun tekin. Ég lít þannig á að ég hafi spilað minn síðasta leik í Ásgarði,“ sagði Justin en vildi ekki fullyrða að hann eigi aldrei eftir að sjást aftur á körfuboltavellinum þótt ekki sé útlit fyrir það.

Hættuleg staða

Justin hefur fengið einkenni heilahristings oftar en einu sinni og tók sér frí vegna þess um tíma í vetur. Við slíkar aðstæður geta fleiri höfuðhögg haft ófyrirséðar afleiðingar. Spurður um hvort hann sé nú einkennalaus segist hann vera það að mestu. Í rimmunni við Grindavík í úrslitakeppninni á dögunum fann hann helst fyrir einkennum eftir mikla áreynslu, þ.e.a.s við mjög háan púls. Justin segir heilsufarsástæður hafa nokkuð með ákvörðunina að gera en tekur fram að fleiri þættir spili inn í ákvarðanatökuna.

„Ég er að eldast og því fylgir æ meiri vinna fyrir 35 ára gamlan leikmann eins og mig að komast í gegnum heilt keppnistímabil. Ég þarf að huga vel að svefni, mataræði og fleiru til að standast yngri mönnum snúning. Íslenska deildin er góð og þegar aldurinn færist yfir þá þarf líkamsástandið að vera gott.“

Sjá allt viðtalið við Justin Shouse í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert