Mögnuð endurkoma meistaranna

LeBron James skoraði 41 stig og er kominn í þriðja …
LeBron James skoraði 41 stig og er kominn í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn NBA-deildarinnar frá upphafi. AFP

Meistararnir í Cleveland Cavaliers eru komnir í 3:0 í einvíginu gegn Indiana Pacers í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik.

Cleveland hafði betur í leik liðanna í nótt, 119:114, eftir magnaða endurkomu. Indiana náði 26 stiga forskoti í fyrri hálfleik en meistararnir sneru dæminu við og Cleveland er fyrsta liðið í sögu úrslitakeppninnar sem fagnar sigri eftir að hafa verið 25 stigum undir í hálfleik. Cleveland vann seinni hálfleikinn, 70:40.

LeBron James fór fyrir Cleveland en hann skoraði 41 stig, tók 13 fráköst og gaf 12 stoðsendingar og hann komst upp fyrir Kobe Bryant í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn í sögu NBA. Hann hefur skorað samtals 5.641 stig, Kareem Abdul-Jabbar er næststigahæstur með 5.762 stig en Michael Jordan er sá stigahæsti með 5.987 stig. Paul George var stigahæstur í liði Indiana með 36 stig.

Mike Conley skoraði 24 stig fyrir Memphis Grizzlies í sigri liðsins gegn San Antonio Spurs og minnkaði muninn niður í 2:1 í rimmu liðanna. Zach Randolph og Marc Gasol voru með 21 stig hvor fyrir Memphis. Kawhi Leonard var stigahæstur hjá Spurs með 18 stig.

Úrslitin í nótt:

Austurdeild:
Cleveland - Indiana 119:114 (3:0)
Milwaukee - Toronto 104:77 (2:1)

Vesturdeild:
Memphis - SA Spurs 105:94 (1:2)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert