Falur tekur við Fjölni

Falur Harðarson.
Falur Harðarson. mbl.is/Árni Sæberg

Keflvíkingurinn Falur Harðarsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Fjölnis í körfubolta sem leikur í 1. deild. 

Falur er ráðinn til ársins 2019 og tekur við starfinu af Hjalta Þór Vilhjálmssyni sem verður þjálfari Þórs á Akureyri eins og fram kom á mbl.is í dag. 

Fjölnir hefur verið í hópi efstu liða í 1. deild síðustu tvö árin en ekki tekist að komast upp í Dominos-deildina. 

Falur þjálfaði karlalið Keflavíkur 2003-2004 ásamt Guðjóni Skúlasyni og varð liðið Íslandsmeistari undir þeirra stjórn. Þjálfaði hann kvennalið Keflavíkur 1989-1991 og aftur 2011-2012. Gerði hann liðið að Íslandsmeisturum árið 1990.

mbl.is