Sandra í framlengdum oddaleik um titilinn

Sandra Lind Þrastardóttir í leik með Keflavík í fyrra.
Sandra Lind Þrastardóttir í leik með Keflavík í fyrra. mbl.is/Styrmir Kári

Sandra Lind Þrastardóttir, landsliðskona í körfuknattleik, varð að gera sér silfurverðlaun að góðu eftir æsispennandi framlengdan oddaleik um danska meistaratitilinn í dag. 

Hörsholm, lið Söndru, sótti Virum heim en liðin höfðu unnið sitt hvorn leikinn í úrslitunum. Virum átti heimaleikjarétt eftir að hafa hafnað í efsta sæti í deildinni. 

Lítið var skorað í oddaleiknum en að loknum venjulegum leiktíma var staðan 44:44. Í framlengingunni gekk liðunum einnig illa að skora og Virum sigraði með tveggja stiga mun 50:48.

Virum náði fjögurra stiga forskoti í framlengingunni en Hörsholm minnkaði muninn í 50:48. Hörsholm átti síðustu sóknina. Fékk boltann þegar 12 sekúndur voru eftir. Á leikskýrslu og atvikalýsingu má sjá að Sandra reyndi þriggja stiga skot fyrir sigri á lokasekúndunum sem ekki rataði rétta leið. 

Sandra skoraði 4 stig og lék í rúmar 23 mínútur. Hún tók 2 fráköst, fékk eina villu og tapaði boltanum einu sinni. 

mbl.is