Stigum til baka úr hvirfilbyl hugsananna

Finnur hafði ástæðu til að fagna í kvöld.
Finnur hafði ástæðu til að fagna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Stefánsson stýrði KR-ingum til sigurs á Íslandsmótinu í körfubolta karla í kvöld. KR vann þá ansi öruggan 95:56 á Grindavík í oddaleik í Vesturbænum. Finnur segir leikinn í kvöld hafa verið þann besta hjá liðinu í vetur.

„Við geymdum það besta þangað til síðast þar sem þetta er okkar besti leikur í vetur. Frammistaða drengjanna í dag var frábær. Það sást í byrjun að við vorum að fá stig frá mörgum og þegar Brynjar datt í skotgírinn, þá vissi maður að þetta var komið því vörnin var frábær á sama tíma."

„Í leik tvö og þrjú skora þeir of mikið af auðveldum körfum, þeir voru að skora 30 tveggja stiga körfur á okkur en í kvöld gerðum við vel gegn þeim. Í síðasta leik var vörnin fín en sóknin var hæg, í dag fórum við alla leið. Við spiluðum okkar bolta, með góðan varnarleik og flottan sóknarleik, þegar við náum því ræður enginn við okkur."

Finnur segir liðið hafa notið þess að spila leikinn í kvöld og það hafi skilað sér. 

„Við stigum til baka úr hvirfilbyl hugsananna, við höfum stundum verið fórnarlamb okkar eigin árangurs. Það er alltaf ætlast til mikils af okkur og við ætlum til mikils af okkur sjálfum. Við höfum stundum gleymt að spila og njóta og einbeitt okkur of mikið að því sem andstæðingurinn er að gera. Í dag spiluðum við og treystum hvorum öðrum."

KR hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn síðustu fjögur ár og er Finnur ansi stoltur af þeim árangri.

„Þetta er ótrúlegt, þó ég segi sjálfur frá. Þetta fer fram úr mínum villtustu draumum að gera KR að sigursælasta liði landsins. Við vorum með 12 titla þegar ég tek við og núna eru þeir 16. Það er í fyrsta skipti í sögunni sem KR er sigursælasta körfuboltalið landsins og fyrir það er ég fáranlega stoltur," sagði Finnur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert