Leikir við fremstu lið Evrópu fram undan

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er meðal þeirra sem eru í U20 …
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er meðal þeirra sem eru í U20 ára landsliðshópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það eru ansi athygliverðir mánuðir fram undan hjá U20 ára landsliði karla í körfuknattleik. Í næstu viku verður fjögurra liða mót í Laugardalshöll, í sumar er gríðarlega sterkt mót á Krít og skömmu síðar, fyrsta Evrópumót Íslands í A-deild í þessum aldursflokki, þar sem 16 sterkustu þjóðir álfunnar taka þátt. 

Ísland, ásamt Finnlandi, Svíþjóð og Ísrael mætast á fjögurra liða mótinu í Laugardalshöll. Svíþjóð og Ísrael eru á meðal þjóða í A-deild Evrópumótsins í sumar og Finnland féll niður í B-deildina, þrátt fyrir að hafa unnið tvo leiki í A-deildinni síðasta sumar. Ísland fær því þrjá mjög sterka andstæðinga í heimsókn og er það fyrsti undirbúningur liðsins fyrir Evrópumótið sjálft. Fyrsti leikur Íslands á mótinu er gegn Svíum á mánudaginn kemur, daginn eftir er leikur gegn Ísrael og síðasti leikur Íslands er gegn Finnum á miðvikudag. Allir leikirnir hefjast kl. 20:00 og fara fram í Laugardalshöll. 

Í næsta mánuði eru svo leikir gegn Ítalíu, Spáni og Grikklandi á æfingamóti á grísku eyjunni Krít. Það er lokaundirbúningur liðsins fyrir Evrópumótið sjálft, sem fer einmitt líka fram á Krít. Ekki er komin dagsetning á það mót, en það verður spilað skömmu áður en Ísland mætir til leiks á Evrópumótinu. Ítalía, Spánn og Grikkland eru allt mjög stórar körfuboltaþjóðir og er það mikill heiður fyrir íslenskan körfubolta að liðið fékk boð á mótið.

Ísland vann sér inn þátttökurétt í A-deild Evrópumótsins með því að hafna í 2. sæti í B-deild á síðasta ári. Evrópumótið fer fram á Krít, 15-23 júlí og er Ísland í riðli með Svartfjallalandi, Frakklandi og Tyrklandi. Ísland tapaði gegn Svartfellingum í lokaúrslitum B-deildarinnar og Frakkland og Tyrkland eru með betri þjóðum í þessum aldursflokki. Það eru því krefjandi en afar spennandi verkefni sem bíða íslenska U20 ára landsliðinu í körfuknattleik á næstu vikum og mánuðum. 

Frá úrslitaleik Íslands og Svartfjallalands síðasta sumar.
Frá úrslitaleik Íslands og Svartfjallalands síðasta sumar. Ljósmynd/Fiba.com

U20 ára landsliðshópurinn: 

Halldór G. Hermannsson - Þór Þorlákshöfn
Arnór Hermannsson - KR
Ingvi Þór Guðmundsson - Grindavík 
Þórir G. Þorbjarnarson - KR
Kristinn Pálsson - Marist háskólinn, Bandaríkjunum
Snjólfur Stefánsson - Njarðvík
Kári Jónsson - Drexel háskólinn, Bandaríkjunum
Snorri Vignisson - Breiðablik
Sveinbjörn Jóhannesson - Breiðablik
Eyjólfur Á. Halldórsson - Skallagrímur
Breki Gylfason - Haukar
Tryggvi Snær Hlinason - Þór Akureyri

Þjálfari liðsins er Finnur Freyr Stefánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert