Tíu stiga sigur á Svartfellingum

Tryggvi Snær Hlinason í leiknum í dag.
Tryggvi Snær Hlinason í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri hafði betur gegn Svartfjallalandi, 60:50, í þriðja leik sínum á Evrópumótinu í Grikklandi í dag. Tryggvi Snær Hlinason átti stórleik og skoraði 19 stig ásamt því að hann tók 13 fráköst. 

Svartfjallaland byrjaði betur og vann fyrsta leikhluta 21:6. Íslenska liðið var hins vegar töluvert sterkari aðilinn í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik 29:27, íslenska liðinu í vil. Svartfellingar minnkuðu muninn í eitt stig fyrir fjórða og síðasta leikhlutann en í honum var íslenska liðið sterkara og tryggði sér sigurinn. 

Þórir Þorbjarnarson skoraði tólf stig og Breki Gylfason níu. Ísland lék án Kára Jónssonar, fyrirliða liðsins, þar sem hann er að glíma við meiðsli. 

Þar með stefnir allt í að Svartfjallaland, Ísland og Tyrkland endi jöfn að stigum í B-riðli keppninnar en Frakkar og Tyrkir mætast í lokaleiknum síðar í dag. Þá skýrist hverjir verðia mótherjar Íslands í sextán liða úrslitum en þeir verða úr A-riðlinum þar sem eru Grikkland, Þýskaland, Svíþjóð og Tékkland.

mbl.is