Var í raun mjög óvænt

Hildur Björg Kjartansdóttir með knöttinn. Hún er á leið til ...
Hildur Björg Kjartansdóttir með knöttinn. Hún er á leið til Spánar eftir að hafa staðið sig vel í háskólaboltanum í Bandaríkjunum síðustu þrjú ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er mjög spennandi og verður mjög gaman,“ sagði Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið en hún er á leið í atvinnumennsku og hefur samið við spænska liðið Club Baloncesto Leganés sem er í Madríd og leikur í næstefstu deild á Spáni.

Hildur er 22 ára gömul og hefur síðustu þrjú árin verið í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og staðið sig vel með liði háskólans í Rio Grande í Texas, en hún útskrifaðist þaðan í vor og var búin að semja við Breiðablik um að leika með liðinu í efstu deild hér heima í vetur. Tilboðið frá Spáni kom því ansi óvænt upp.

„Þetta var í rauninni mjög óvænt. Ég ætlaði alltaf að vera eitt ár hérna heima og fara svo út, þannig að ég fékk mér umboðsmann til þess að undirbúa næsta ár. En þá kom þetta tækifæri upp. Liðið vantaði leikmann í mína stöðu og leist vel á mig,“ sagði Hildur Björg, en hún samdi til eins árs við spænska liðið og neitar því ekki að hafa þurft að hugsa sig vel um.

Sjá viðtal við Hildi Björgu í heild í íþróttablaði Morgublaðsins í dag.