Ekki nóg að spila einn góðan fjórðung

Jón Arnór Stefánsson með boltann í leiknum.
Jón Arnór Stefánsson með boltann í leiknum. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

„Það er ekki nóg að spila einn góðan fjórðung á móti liði eins og Grikklandi,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, eftir tapið á móti Grikkjum, 61:90, í fyrsta leik Evrópumótsins í körfubolta í Finnlandi. „Við náðum að sýna tennurnar og spiluðum vel, sérstaklega í öðrum leikhluta og fórum inn í leikhlé með ágætisstöðu, en þetta er erfitt lið að spila á móti og við gerðum of mikið af mistökum í dag til að eiga séns á að vinna.“

Jón Arnór viðurkenndi að taugatitringur hefði verið í liðinu fyrir fyrsta leik mótsins. „Já, mér fannst það, svolítill skjálfti. Mér fannst boltinn hlaupa úr höndunum á mönnum og það var rosalega mikið af mistökum hjá báðum liðum,“ sagði hann og bætti við: „Svo vorum við að spila á móti miklum íþróttamönnum, stórum körlum og gerðum hlutina kannski of erfiða og stressuðumst upp.“

Hann vildi þó ekki aðeins taka það út úr leiknum og margt af því, sem stóð til að gera í leiknum tókst. „Við erum alltaf mjög bjartsýnir og jákvæðir,“ sagði hann. „Þetta eru engar smáþjóðir, sem við erum að spila við og það þýðir ekkert fyrir okkur að hengja haus eftir þennan leik. Við reynum að taka það jákvæða út úr þessu og reynum að fara áfram á því, annars eigum við lítinn séns í framhaldinu. Við erum með hausinn uppi, þetta er fyrsti leikur. Við vissum að þetta væri erfitt verkefni og við munum bara halda áfram að berjast. Ég vil meina að við höfum barist í dag og reyndum okkar besta en það var ekki nóg.“

Hann sagði að ef til vill væri aumingjaskapur að kenna boltanum um, en hann væri umdeildur.

„Það hefur verið lögð fram kvörtun frá öllum liðum,“ sagði hann. „Boltinn er mjög sleipur, það er búið að pumpa svo mikið í hann að það hálfa væri ágætt. Það mætti spyrja hvern einasta leikmann í þessum tveimur leikjum, hann myndi segja það sama.

Jón Arnór spilaði ekkert með liðinu í æfingaleikjunum fyrir mótið vegna meiðsla. Hann sagðist vera nokkuð ánægður með úthaldið eftir leikinn. „Mig vantaði aðeins upp á og var svolítið óöruggur með boltann eins og við flestir, en það kemur,“ sagði hann og bætti við að hann hefði lítið fundið fyrir meiðslunum. „Það er bara ofboðslega gott að koma frá þessum leik, spila í þetta margar mínútur og vera í góðu standi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert