Frækinn sigur Finna

Lauri Markkanen frá Finnlandi berst við Louis Labeyrie úr franska …
Lauri Markkanen frá Finnlandi berst við Louis Labeyrie úr franska liðinu um frákast. Markkanen var burðarásinn í sigri Finna á Frökkum í kvöld. AFP

Finnar unnu í kvöld frækinn sigur á stjörnum prýddu liði Frakka í fyrsta leik sínum á Evrópumeistaramótinu í körfubolta, sem fram fer í Finnlandi. Frakkar leiddu lengstum í leiknum, en í lok fjórða leikhluta var jafnt og þurfti framlengingu til að gera út um leikinn. Þar reyndust Finnar sterkari og unnu að lokum með tveimur stigum, 86:84.

Margir hafa talið að Frakkar væru með sigurstranglegasta liðið á þessu Evrópumóti. Innan raða þess eru fimm leikmenn, sem eru á mála hjá liðum í NBA, sterkustu deild heims. Finnar báru hins vegar enga virðingu fyrir andstæðingum sínum og studdir dyggum stuðningsmönnum, sem létu óspart í sér heyra, sýndu þeir sínar bestu hliðar.

Það var tvítugur leikmaður, Lauri Markkanen, sem átti stærstan þátt í sigri Finna. Þrátt fyrir að vera ungur steig hann ekki feilspor á lokamínútunum og skoraði gríðarlega mikilvægar körfur. Hann var stigahæstur Finna með 22 stig og tók auk þess flest fráköst, sjö.

Bakvörðurinn Jamar Wilson átti einnig frábæra spretti og skoraði sigurkörfuna þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Þessi lið eru í sama riðli og Íslendingar og verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu. Næst mæta Frakkar Grikkjum, sem fyrr í dag sigruðu Íslendinga. Verði Frakkar jafndáðlausir og á móti Finnum munu þeir lenda í vandræðum á móti sterku liði Grikkja. Finnar eiga hins vegar leik við Slóvena og eru til alls líklegir í þeim leik með þann meðbyr, sem þeir fengu í seglin í kvöld.

Hér má sjá tölur úr leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert