„Það er gott að vinna fyrsta leik“

Martin Hermannsson og Nick Calathes í leiknum í Helsinki í …
Martin Hermannsson og Nick Calathes í leiknum í Helsinki í dag. AFP

„Það er gott að vinna fyrsta leik,“ sagði Evangelos Mantzaris, leikmaður gríska landsliðsins í körfubolta, eftir sigurinn á Íslandi, 61:90, í Helsinki í dag. Hann sagði að íslenska landsliðið hefði ítrekað komið sínu liði á óvart í leiknum og vísaði þar væntanlega til þess þegar íslenska liðið réðst til atlögu í öðrum leikhluta og breytti 19 stiga forskoti Grikkja í tvö stig. „En okkur tókst að sigra,“ sagði Mantzaris. „Þetta var slæmt í öðrum leikhluta, en í þriðja leikhluta tókum við þessu af alvöru, héldum okkur við leikáætlunina og þess vegna sigruðum við stórt.“

Konstatinos  Missas, þjálfari gríska liðsins, sagðist sammála þessum orðum leikmanns síns. „Það kemur alltaf eitthvað á óvart í fyrsta leik á stórmóti,“ sagði hann. „Fyrstu leikir eru hættulegir, sérstaklega gegn liði, sem ekki er með hávaxna leikmenn, sem allir geta hlaupið og allir geta skotið. Við erum með mjög hávaxna leikmenn og lendum í vandræðum í sókn og vörn.“

Hann sagði að liðið hefði haldið einbeitingu í fyrsta leikhluta, en í öðrum hefði það íslenska spilað fast og jafnað leikinn. Hann hefði gert ýmsar breytingar í seinni hálfleik, sérstaklega í vörn, og með því að spila hratt eftir varnarfráköst hefði liðið náð að skora auðveldar körfur.

Frakkar eru næsti andstæðingur Grikkja. Missas sagði að þá hefðu Grikkir ekki efni á að missa boltann jafnoft og í dag. „20 tapaðir boltar er of mikið,“ sagði hann. „Í síðustu fimm leikjum höfum við verið með tíu að meðaltali. Núna vorum við hvort sem er með betra liðið, en á móti betra liði yrði okkur rústað ef við töpuðum boltanum svona oft.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert