Góðir sprettir gegn frábæru liði

Hlynur Bæringsson leggur boltann ofan í körfuna á meðan Luka …
Hlynur Bæringsson leggur boltann ofan í körfuna á meðan Luka Doncic horfir á. Hlynur sagði að íslenska landsliðið hefði átt góða spretti, en orðið að játa sig sigrað gegn frábæru liði Slóvena. Skúli B. Sigurðsson

„Mér fannst við eiga nokkra góða spretti á móti frábæru liði, sem er með mjög, mjög hæfileikaríka og góða leikmenn,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í körfubolta, á blaðamannafundi eftir tapleikinn gegn Slóveníu, 75:102, í dag. „Þeir eru með Dragic, alla þessa leikmenn. Þetta er hágæðalið, þeir gætu spilað til verðlauna, hver veit. Þeir eru greinilega einnig með frábæran þjálfara, það sést á því hvernig þeir spila saman.“

Hlynur var öflugur í leiknum, hljóp völlinn vel og var jafnvel fremsti maður í hraðaupphlaupum. Hann skoraði 14 stig, tók fjögur fráköst og átti tvær stoðsendingar. „Ég er stoltur af því hvernig við börðumst,“ sagði Hlynur. „Við börðumst allt til loka. Nokkrir ungu strákanna hjá okkur fengu að spila og gerðu margt vel, vonandi  mun það koma þeim til góða síðar á þeirra ferli. En auðvitað er Slóvenía einfaldlega betra lið en við og það vissu allir áður en gengið var til leiks.“

Craig Pedersen, þjálfari íslenska liðsins, sat við hlið Hlyns á blaðamannafundinum. Hann hrósaði liðinu og kvaðst stoltur af baráttu þess. Slóvenarnir hefðu hins vegar gert breytingar í vörninni hjá sér og tekist að stöðva flæðið í íslenska sóknarleiknum eftir að hafa verið undir í fyrsta leikhluta, 25:23. Þá hefðu Slóvenarnir verið mjög duglegir að refsa íslenska liðinu fyrir öll mistök og væru með góða leikmenn, sem ættu auðvelt með að búa til opin og auðveld skot hver fyrir annan.

Síðasti leikur Íslands verður gegn Finnlandi á morgun. Finnar hafa verið á mikilli siglingu, unnu Frakka í fyrsta leik, töpuðu naumlega gegn Slóvenum og höfðu síðan sigur á Grikkjum í tvíframlengdum leik. Í kvöld mæta Finnar Grikkjum.

„Við munum nálgast leikinn eins og alla hina leikina,“ sagði Pedersen. „Við munum skoða myndbönd, fara yfir einstaka leikmenn og skiplag finnska liðsins. Finnar eru einnig með mjög hæfileikaríkt lið. Þeir eru með leikmenn, sem eru að spila víða í Evrópu, en ég á von á að við munum sýna baráttu eins og við höfum gert í öllum hinum leikjunum og berjast frá upphafi til enda, sama hver staðan er. Auðvitað vonum við að við getum sýnt meiri stöðugleika í leik okkar á morgun og haft sigur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert