Kristó fer til Filippseyja

Kristófer Acox fær ekki mikla hvíld eftir EM.
Kristófer Acox fær ekki mikla hvíld eftir EM. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfuknattleik, heldur á morgun á vit nýrra ævintýra á Filippseyjum eftir að hafa samið við atvinnumannalið þar í landi í morgun. 

Kristófer staðfesti þetta við mbl.is í kvöld en liðið ber hið skemmtilega nafn: Star Hotshots og er í 7. sæti í efstu deild á Filippseyjum. 

Þar er nú deildakeppnin að ná hámarki og eru fjórir leikir eftir. Star Hotshots þarf að vinna þrjá þeirra til að vera öruggt um að komast í 8-liða úrslitakeppnina um titilinn sem er með sama sniði og hér heima. 

Kristófer samdi út keppnistímabilið og mun því leika með KR í vetur eins og áætlað var. Spurningin er bara hvenær Kristófer snýr aftur til KR. Verður það eftir fjóra deildarleiki eða kemst liðið í úrslitakeppnina? Svo gæti farið að Kristófer missi af fyrsta leik KR í Evrópukeppninni í haust en hann ætti ekki að missa mikið úr Íslandsmótinu. 

Kristófer tjáði mbl.is að málið hafi komist á dagskrá eftir EM í Helsinki. Tilboðið hafi verið það gott að erfitt hafi verið fyrir hann að hafna því. Auk þess hafi það einfaldað ákvörðunina að um stuttan samning væri að ræða og myndi ekki breyta fyrirætlunum hans í vetur. 

Eigendur körfuboltaliðsins eru umsvifamiklir í matvælaframleiðslu á Flippseyjum en framleiða einnig hina þekktu bjórtegund: San Miguel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert