Tvær treyjur hengdar upp

Kobe Bryant.
Kobe Bryant. AFP

Los Angeles Lakers ætlar að sýna fyrrverandi leikmanni sínum Kobe Bryant virðingarvott sem bragð er að. Þekkt er að NBA-körfuboltaliðin taka úr umferð númer sem þeirra dáðustu menn hafa leikið með á bakinu og maganum í gegnum ferilinn.

Hefur Lakers til að mynda hengt upp treyjur leikmanna eins og Jerry West, Wilt Chamberlain, Kaereem Abdul Jabbar og Magic Johnson svo einhverjir séu nefndir. Kobe Bryant mun hins vegar fá tvær treyjur hengdar upp í sínu nafni. Á tuttugu ára ferli hjá Lakers notaði Bryant tvö númer, annars vegar 24 og hins vegar 8.

„Mig dreymdi alltaf um að treyja í mínu nafni myndi hanga uppi hjá Lakers en ég gat ekki ímyndað mér að þær yrðu tvær,“ er haft eftir Bryant í yfirlýsingu frá Lakers. Kobe Bryant skoraði 33.643 stig fyrir Lakers í NBA og er stigahæstur í sögu félagsins. Er hann raunar sá þriðji stigahæsti í deildinni frá upphafi. Hann varð tvívegis Ólympíumeistari í körfubolta með Bandaríkjunum.