Trump dró boðið til NBA-meistaranna til baka

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hik er sama og tap ef marka má orð Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem dró til baka heimboð sitt til NBA-meistaranna í Golden State Warriors í Hvíta húsið. Þetta gerði hann fyrir skömmu á Twitter.

Stephen Curry, stjarna Golden State-liðsins, sagði í gær á blaðamannafundi að hann væri mótfallinn því að liðið sitt væri á leið til Trump í Hvíta húsið og sagðist líklega ekki þiggja boðið sjálfur.

„Það að fá heimboð í Hvíta húsið er talinn mikill heiður. Stephen Curry hikar og boðið því dregið til baka,“ sagði Trump hins vegar á Twitter í dag og því hefur Curry ekkert til að hugsa um.

Hefð er fyrir því vestan hafs að meistaralið heimsæki Hvíta húsið og það hafa þau gert allt frá árinu 1865. Curry, sem hefur orðið meistari með Golden State síðastliðin þrjú ár, heimsótti Hvíta húsið á meðan Barack Obama var við völd en virðist greinilega ekki vera aðdáandi Trumps.

„Ég vil ekki fara,“ sagði Curry en tók það fram að þetta snerist ekki bara um sig heldur liðið.

Stephen Curry er mögulega feginn að þurfa ekki að taka …
Stephen Curry er mögulega feginn að þurfa ekki að taka ákvörðun um að fara í Hvíta húsið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert