Glórulaust að gefa upp galopinn þrist

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum svekktir að tapa en mér fannst við einhvern veginn vera eftir á megnið af leiknum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar eftir 78:74 tap gegn Njarðvík í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Það var ekki sami liðsbragur á okkur eins og við viljum hafa, hvorki í vörn né sókn. Þegar ég horfi á það þá er ég ekkert hissa að ná ekki í sigur. En af því að við erum búnir að ná að jafna leikinn og gerum svo óþarfa mistök varnarlega á lokakaflanum sem afhenda þeim keflið aftur þá er ég svekktur.“

Leikurinn var mjög jafn allt fram á lokasprettinn þegar gestirnir náðu að slíta sig frá Þórsurum og var Einar ósáttur með þriggja stiga körfuna sem Maciek Baginski setti undir lokin fyrir Njarðvík.

„Þetta er jafn leikur þegar 50 sekúndur eru eftir og Magic fær galopinn þrist, það er glórulaust að við gefum það skot upp og það setur leikinn í erfiða stöðu. Svo er Emil klaufi að fá fimmtu villuna, hann var búinn að vera öflugur fyrir okkur í kvöld og við máttum ekki við því að missa hann út.“

Leik Þórs Þ. og Grindavíkur í fyrstu umferðinni var frestað eftir að leikmenn Þórs veiktust illa eftir matareitrun. Einar segir leikmenn sína enn þá vera að jafna sig af því.

„Við ætlum ekkert að skýla okkur á bak við það, við þurftum að una þeirri niðurstöðu og höfum látið í ljós okkar óánægju með það. Við vitum að við erum töluvert frá því þar sem við viljum vera, það eru margir leikmenn sem eru að koma til baka úr meiðslum og eru að ná sér af veikindum, þeim vantar bara að ná sér upp orku aftur. Þeir taka bara næsta skref í hörku bikarleik á sunnudaginn, þessi leiðinda veikinda hrina hefur truflað okkur en það þýðir ekkert að skæla það.“

Jesse Pellot-Rosa átti erfitt uppdráttar í leiknum og var m.a. með 8-21 í skotnýtingu en hann á að vera einn af burðarstólpum liðsins, býst Einar ekki við meiru af honum?

„Engin spurning, ég aftur á móti er óánægðari með varnarleikinn hans. Hann svosem lendir í villu vandræðum í fyrri hálfleik og er að passa sig í þeim síðari en hann hefði þurft að stíga upp í þriðja og fjórða leikhluta. Það pirrar mig meira en einhver klikkuð skot sem eru bara partur af þessu, við vorum að fá fullt af fínum skotum í dag og Ólafur Helgi var að fá skot sem við viljum að hann fái en það gekk ekki upp í dag.“

Þór Þ. hefur nú tapað báðum leikjum sínum til þessa en engan bilbug er að finna á Einari og hans mönnum.

„Við erum búnir að spila við tvö lið sem er spáð í toppbaráttu og þetta hafa verið hörku leikir en ef ég á að vera heiðarlegur þá fannst mér meiri gæði í okkar leik á sunnudaginn en hér í kvöld. En við erum með stráka sem eiga eftir að koma vel til baka og svo sjáum við til með framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert