Við urðum litlir

Ágúst Sigurður Björgvinsson
Ágúst Sigurður Björgvinsson mbl.is/Árni Sæberg

„Við urðum litlir. Við verðum að þora að taka þessa leiki, það var munurinn á okkur á þeim. Við vorum síst lakari aðilinn í leiknum, en við verðum að vera grimmari til þess að loka leikjum," sagði svekktur Ágúst Sigurður Björgvinsson, þjálfari Vals eftir 73:69-tap gegn Tindastól í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta. 

Valsmenn voru yfir allan leikinn þangað til í blálokin gegn virkilega vel mönnuðu liði Tindastóls.  

„Baráttan og leikgleði var til fyrirmyndar. Fjórði leikhlutinn er það sem maður man mest eftir þessa stundina. Hann var andstæðan við hina þrjá. Við urðum hræddir á meðan við vorum að spila með hjartanu í hinum leikhlutunum, þar sem við höfðum bara áhyggjur á að spila körfubolta og ekki neinu öðru."

Ágúst er ánægður með bætinguna á milli leikja hjá sínum mönnum en Valur steinlá fyrir Keflavík í 1. umferð. 

„Þetta er bara annar leikur og er við bætum okkur svona á milli leikja er ég ekki svartsýnn á framhaldið. Tindastóll er eitt af best mönnuðu liðunum í deildinni og það er eitt af liðunum sem gerir tilkall til að vinna þessa deild, en við eigum að geta gert betur," sagði hann að lokum. 

mbl.is