Meistararnir töpuðu eftir dramatík

LeBron James átti stórleik fyrir Cleveland Cavaliers þegar liðið hafði …
LeBron James átti stórleik fyrir Cleveland Cavaliers þegar liðið hafði betur gegn Boston Celtics í leik liðanna í nótt. AFP

NBA-deildin í körfubolta karla hófst með tveimur stórleikjum í nótt. Golden State Warriors sem er ríkjandi meistari hóf titilvörn sína með 122:121 tapi gegn Houston Rockets. Þá lagði Cleveland Cavaliers, sem laut í lægra haldi gegn Golden State Warriors í úrslitum á síðustu leiktíð, Boston Celtics að velli. Lokatölur urðu 102:99 Cleveland Cavaliers í vil. 

Það var mikil spenna í leik Houston Rockets og Golden State Warriors. Houston Rockets var 122:121 yfir fyrir lokasókn Golden State Warriors. Kevin Durant, sem valinn var verðmætasti leikmaðurinn þegar Golden State Warriors bar sigurorð af Cleveland Cavaliers í úrslitaviðureign liðanna á síðasta keppnistímabili, skoraði körfu í þann mund sem lokaflautan gall.

Dómarar leiksins mátu það svo að leiktíminn hefði verið liðinn þegar Durant skoraði, karfan var þar af leiðandi ekki dæmd gild og Houston Rockets hrósaði sigri. James Harden var stigahæstur í liði Houston Rockets með 27 stig, en Nick Young var atkvæðamestur hjá Golden State Warriors með 23 stig.  

LeBron James var stigahæstur í liði Cleveland Cavaliers í sigri liðsins gegn Boston Celtics. James skoraði 29 stig, en hann tók þar að auki 16 fráköst og gaf níu stoðsendingar. James var því einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Jaylen Brown var hins vegar atkvæðamestur í liði Boston Celtics með 25 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert