Koma ekki eins hræddar í svona leiki

Thelma Dís Ágústsdóttir liðkar sig til á æfingu landsliðsins í ...
Thelma Dís Ágústsdóttir liðkar sig til á æfingu landsliðsins í vikunni. mbl.is/Hari

„Við vitum að báðir þessir leikir verða gríðarlega erfiðir enda voru bæði þessi lið í lokakeppni EM í sumar,“ segir Ívar Ásgrímsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í körfubolta, en liðið mætir Svartfjallalandi og Slóvakíu á næstu dögum í undankeppni EM.

Leikurinn við Svartfjallaland er fyrsti leikur Íslands í undankeppninni og hefst hann kl. 16 á morgun í Laugardalshöll.

„Við vitum að þetta verða mjög sterkir andstæðingar og að við þurfum að mæta mjög einbeittar til leiks til þess að eiga séns. Þær [Svartfellingar] eru stórar, meðalhæðin er 185 sentímetrar, og þær eru líka sterkar og grimmar. Við þurfum því að vera mjög öguð í okkar sóknarleik og megum ekki tapa boltanum oft á móti þeim, því þær eru fljótar að refsa eins og öll góð lið,“ segir Ívar.

„Við þurfum að halda áfram að byggja á okkar varnarleik sem hingað til hefur verið fínn. Vandamálið hefur verið að skora, og okkur hefur vantað dálítið upp á betri nýtingu, því við höfum fengið fín færi. Það er það sem við þurfum að laga, og koma einbeitt til leiks,“ segir Ívar.

Sigurinn á Ungverjum sýndi að við getum þetta

Íslenska liðið hefur sýnt það á undanförnum árum að á góðum degi getur það náð frábærum úrslitum, sérstaklega í Laugardalshöllinni þar sem Portúgalar og Ungverjar hafa til að mynda lotið í lægra haldi.

„Stóri sigurinn gegn Ungverjum [í febrúar 2016] sýndi að við getum unnið allar þessar bestu þjóðir. Hann segir margt um hvað þetta lið getur. Þá hittum við mjög vel. Helena [Sverrisdóttir] hitti gríðarlega vel í byrjun, og aðrar komu með. Um leið og við hittum vel fyrir utan erum við í fínum málum. Vörnin okkar er orðin það góð í dag. Við erum ekki með mikið af skorurum við teiginn og þurfum að stóla á að leikmenn hitti utan þriggja stiga línunnar. Ef það gengur ekki verður þetta mjög erfitt,“ segir Ívar.

Munum styrkjast á komandi árum

Helena Sverrisdóttir gat ekki leikið með landsliðinu síðasta vetur enda gekk hún þá með sitt fyrsta barn, en hún var mætt aftur í liðið strax í byrjun síðasta sumars. Ungir leikmenn liðsins hafa öðlast góða reynslu og nú hefur atvinnumaðurinn Hildur Björg Kjartansdóttir bæst í hópinn eftir að hafa verið í háskólanámi í Bandaríkjunum undanfarna vetur.

„Við erum að styrkjast og munum styrkjast á komandi árum. Það munu leikmenn bætast við liðið á næstu tveimur árum sem hafa verið að spila í Bandaríkjunum, og í því felst gríðarlegur styrkur. Að sama skapi höfum við verið að taka ungar stelpur inn í liðið sem fengu mikla eldskírn í fyrra þegar Helena datt út. Núna er reyndar Gunnhildur [Gunnarsdóttir] dottin út, og við söknum hennar auðvitað því hún spilaði stórt hlutverk hjá okkur, en þessar ungu stelpur eru grimmar, hafa trú á verkefninu og eru orðnar vanar því að spila í undankeppnum með U18- og U20-landsliðunum. Hann hjálpar okkur gríðarlega, þessi metnaður sem KKÍ hefur sýnt við að láta yngri landsliðin spila í Evrópukeppnum. Við þurfum að spila við sterkar þjóðir til að verða betri, og það hafa þær gert í yngri landsliðunum. Þær koma því ekki eins hræddar inn í A-landsliðið. Þær vita hvað þær eru að fara út í,“ segir Ívar.

mbl.is