Léttir á sálartetrinu í skammdeginu

Ágúst Sigurður Björgvinsson.
Ágúst Sigurður Björgvinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum búnir að vera að spila mjög vel í vetur og því miður ekki náð fleiri sigrum en núna kom fyrsti heimasigurinn og tilfinningin er mjög góð,“ sagði Ágúst Sigurður Björgvinsson, þjálfari Vals, eftir 110:104-sigur gegn Stjörnunni í framlengdum leik í 6. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

„Það tekur alltaf á sálarlífið að klára ekki leikina en við höfum bara einbeitt okkur að því sem við getum breytt og höldum áfram að reyna að gera það sem við gerum vel. En auðvitað léttir það á sálartetrinu í skammdeginu að ná sigri. Við erum búnir að vinna tvo af fyrstu sex sem er nokkuð gott miðað við að við erum nýliðar í deildinni.“

Valur hafði yfirhöndina lengst af en virtist svo vera að glutra því niður í fjórða leikhlutanum. Stjarnan var sjö stigum yfir þegar 40 sekúndur voru eftir á klukkunni en heimamönnum tókst á ótrúlegan hátt að knýja fram framlengingu.

„Við náum 17 stiga forystu og komum rosalega vel stemmdir inn. Þeir setja svæðisvörn á okkur í seinni hálfleik og við skorum úr fyrstu fimm sóknunum en svo verðum við eitthvað hræddir við að leiða og förum að horfa of mikið á töfluna. Þeir eru sjö stigum yfir þegar það eru 40 sekúndur eftir og það var ótrúlegt hvernig við komumst inn í leikinn. Mér fannst þetta ekki vera spurning þegar við komumst inn í framlenginguna.“

Í kvöld hafði lið Vals grimmdina til að fara alla leið og klára leik með sigri að mati Ágústs.

„Við kláruðum leikinn fyrir austan á móti Hetti þó að það hafi ekki verið góður leikur af okkur hálfu en baráttan var góð. Það hefur vantað í síðustu tveimur heimaleikjum þessa grimmd til að klára leikinn en við vorum hársbreidd frá því að vinna KR og Tindastól sem eru tvö af bestu liðum landsins.“

„Ég er nokkuð bjartsýnn ef við höldum áfram að einbeita okkur að því sem við stjórnum. Stemningin og mórallinn í hópnum er frábær, eins og hann gerist bestur, og ef við höldum því þá eru okkur allir vegir færir,“ sagði hann að endingu.

mbl.is