Valur vann Stjörnuna eftir framlengingu

Collin Anthony Pryor, leikmaður Stjörnunnar, með boltann gegn Val í …
Collin Anthony Pryor, leikmaður Stjörnunnar, með boltann gegn Val í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann Stjörnuna 110:104 í framlengdum leik í 6. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld. Valsarar voru að leita að sínum fyrsta heimasigri í vetur en Stjarnan var að reyna að enda þriggja leikja taphrinu eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki mótsins.

Leikurinn var mjög sveiflukenndur í fyrri hálfleik og skiptust liðin ótaloft á forystunni. Urald King og Austin Magnus Bracey voru hvað skæðastir í liði Valsmanna fyrir hlé með 14 og 13 stig hvor á meðan Birgir Björn Pétursson var með sjö fráköst. Í varnarleik Stjörnunnar var ýmsu ábótavant og var Hrafn Kristjánsson þjálfari nokkuð líflegur á hliðarlínunni þegar hann reyndi að koma skilaboðum til sinna manna.

Valsarar hófu síðari hálfleikinn með látum og skoruðu fyrstu 11 stigin úr meðal annars þremur þriggja stiga körfum. Gestirnir tóku þá strax leikhlé og skoruðu næstu níu stig og eftir það hélt leikurinn áfram að vera kaflaskiptur en heimamenn höfðu yfirhöndina allan þriðja leikhluta.

Garðbæingar hrukku hins vegar í gang í fjórða leikhluta með Róbert Sigurðsson fremstan í flokki en hann skoraði 26 stig, átti tíu fráköst og níu stoðsendingar í leiknum. Stjarnan virtist vera búin að snúa taflinu sér í vil á lokasprettinum en Valsarar, sem voru sjö stigum undir þegar 40 sekúndur voru eftir, náðu að jafna metin á lokasekúndunni en þar var á ferð enginn annar en Urald King.

Það þurfti því að grípa til framlengingar og þar héldu liðin áfram að vera hnífjöfn en Valsarar unnu að lokum 110:104 . Bracey var með 34 stig og King 32 í leiknum en þeir voru hreint út sagt magnaðir í þessum fyrsta heimasigri Valsara í vetur.

Valsarar fara upp í 9. sætið og eru nú með fjögur stig en Stjarnan er áfram í 8. sætinu.

Valur - Stjarnan 110:104

Valshöllin, Úrvalsdeild karla, 10. nóvember 2017.

Gangur leiksins:: 6:4, 10:12, 21:19, 23:20, 29:27, 37:34, 43:41, 51:45, 62:47, 69:54, 69:60, 72:63, 76:74, 84:87, 88:91, 97:99, 105:101, 110:104.

Valur: Austin Magnus Bracey 34, Urald King 32/9 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 10/4 fráköst, Benedikt Blöndal 9/10 stoðsendingar, Birgir Björn Pétursson 8/8 fráköst, Illugi Steingrímsson 8, Oddur Birnir Pétursson 5, Gunnar Ingi Harðarson 2, Sigurður Páll Stefánsson 2.

Fráköst: 30 í vörn, 7 í sókn.

Stjarnan: Róbert Sigurðsson 29/10 fráköst/8 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 23/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 16/8 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 13/12 fráköst, Marvin Valdimarsson 9, Arnþór Freyr Guðmundsson 8, Eysteinn Bjarni Ævarsson 6/6 fráköst.

Fráköst: 31 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson, Ísak Ernir Kristinsson.

Valur 110:104 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert