Veðsetur Ólympíugull fyrir fórnarlömbin

Heimili mörg þúsunda eru hrunin í Kermanshah-héraðinu og neyðin er …
Heimili mörg þúsunda eru hrunin í Kermanshah-héraðinu og neyðin er mikil. AFP

Kianoush Rostami, 26 ára gamall lyftingamaður frá Íran, hefur sett gullverðlaunapening sinn frá Ólympíuleikunum í Ríó 2016 á uppboð til þess að safna fé til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans sem reið yfir landamæri Írans og Íraks á dögunum.

Jarðskjálftinn er sá mannskæðasti sem orðið hefur á þessu ári. Staðfest hefur verið að 413 hafi farist í Íran og 9 í Írak. Yfir 8 þúsund manns hafa slasast og eru aðstæður í Kermanshah-héraðinu sem var verst úti afar slæmar og neyðast fjölmargir til þess að sofa utandyra í vetrarkuldanum.

Rostami er sjálfur frá þessu héraði og vildi leggja sitt af mörkum. Hann segist sjálfur varla hafa sofið eftir að skjálftinn reið yfir. Í hans fótspor hefur svo Sarah Javanmardi fylgt, en hún varð fyrsta konan í sögu Íran sem vinnur gull í skotimi á Ólympíumóti fatlaðra í fyrra.

BBC greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert