Þetta var geggjuð liðsheild

Sigtryggur Arnar Björnsson, til hægri, er ánægður með varnarleik Tindastóls.
Sigtryggur Arnar Björnsson, til hægri, er ánægður með varnarleik Tindastóls. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigtryggur Arnar Björnsson átti mjög góðan leik með Tindastóli í kvöld þegar liðið vann Þór frá Þorlákshöfn með yfirburðum, 92:58, í Dominos-deild karla í körfuknattleik á Sauðárkróki.

„Þetta var geggjuð liðsheild hjá okkur í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi en við spiluðum mjög góða vörn í seinni hálfleiknum. Heilt yfir var þetta samt bara mjög góður varnarleikur hjá okkur. Nú höldum við bara áfram að gera það sem við höfum gert vel til þessa,“ sagði Sigtryggur Arnar við mbl.is eftir leikinn.

Hann fór af velli með fimm villur í leiknum. „Já, það er ekkert nýtt, ég verð að fara að passa mig aðeins hvað þetta varðar,“ sagði Sigtryggur Arnar sem skoraði 20 stig og tók 6 fráköst.

Þórsarar höfnuðu því að koma í viðtöl eftir leikinn.

mbl.is