Tryggvi ekki með gegn Tékkum

Tryggvi Snær Hlinason
Tryggvi Snær Hlinason mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Axel Kárason og Tómas Þórður Hilmarsson koma inn í A-landsliðið í körfuknattleik sem mætir Tékkum og Búlgörum 23. og 27. nóvember í undankeppni HM. Pavel Ermolinskij er meiddur og Valencia hleypir ekki Tryggva Snæ Hlinasyni í leikina. 

Eins og fram hefur komið hafa liðin sem eru í Euroleague ekki tekið tillit til undankeppni HM og virða ekki leikdagana. Lýsa má því sem eins konar stríði á milli Euroleague, sem er einkafyrirtæki, og hins vegar alþjóðakörfuknattleikssambandsins. Valencia er í Euroleague og hleypir engum leikmanni í landsliðsverkefni.

Engu að síður kom fram hjá Craig Pedersen landsliðsþjálfara á blaðamannafundi KKÍ í dag að væntingar stæðu til þess að hægt yrði að fá Tryggva í síðari leikinn gegn Búlgaríu. Mun það skýrast síðar. 

Fimm leikmenn eru þá forfallaðir í þessum leikjum og mögulega sex ef Tryggvi kemst ekki heldur í leikinn gegn Búlgaríu. Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij eru meiddir. Elvar Már Friðriksson og Ægir Þór Steinarsson fá ekki leyfi frá sínum liðum í Bandaríkjunum og á Spáni. Hörður Axel Vilhjálmsson gefur ekki kost á sér að þessu sinni.

mbl.is