Með alla burði til að gera vel

Emil Karel Einarsson,fyrirliði Þórs.
Emil Karel Einarsson,fyrirliði Þórs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór Þorlákshöfn hefur ekki byrjað leiktíðina sem skyldi í Dominos-deild karla í körfubolta. Eftir að hafa orðið silfurlið bikarkeppninnar síðustu tvö ár, og átt sæti í úrslitakeppninni á hverju tímabili síðan árið 2012, er Þór nú í fallsæti með fjögur stig eftir átta leiki.

Þórsarar unnu annan sigur sinn á leiktíðinni í síðustu umferð þegar þeir lögðu Valsmenn að velli með tíu stiga mun, 78:68. Hinn sigurinn kom gegn Stjörnunni, einnig heima í Icelandic Glacial-höllinni. Þórsarar vilja ólmir rétta betur úr kútnum og leiðrétta þann misskilning að þeir verði í fallbaráttu í vetur, en leiktíðin hefur verið skrautleg og hún hófst seinna en ella vegna matareitrunar sem lagðist á hópinn:

„Hún hrjáði okkur í u.þ.b. tvær vikur, en svo byrjuðum við á hörkuleikjum við Grindavík og Njarðvík sem við töpuðum bara á lokasekúndunum. En svo fórum við bara að spila illa, og hitta illa. Við höfum líka lent talsvert í meiðslum og nú er Snorri [Hrafnkelsson] kominn með einkirningasótt. Þetta hefur verið hálfótrúlegt ástand á þessu tímabili. Miðherjinn okkar er því dottinn út og ég kominn aftur í þá stöðu, og við höfum þurft að gera fleiri breytingar á skipulaginu,“ segir Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs og einn reyndasti leikmaður liðsins þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall.

„En við lentum líka í einhverju andlegu þroti. Það komu þarna nokkrir leikir þar sem var eins og að við hefðum engan vilja til að gera neitt. Það var sérstaklega áberandi í næstsíðasta leik, gegn Tindastóli úti, þar sem var bara eins og enginn nennti þessu. Við tókum gott spjall í búningsklefanum eftir þennan leik, og mér fannst við komast á sömu blaðsíðu, og ég er bara mjög bjartsýnn varðandi framhaldið. Við munum núna fara aftur að spila hraðan körfubolta, hlaupa hratt fram og aftur og skjóta væntanlega eitthvað af þriggja stiga skotum. Ég er bjartsýnn á að við förum að vinna fleiri leiki og við ætlum okkur að komast í úrslitakeppnina, enda væri annað furðulegt með þetta lið sem við erum með,“ segir Emil.

Sjá ítarlega kynningu á liði Þórs Þorlákshafnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert