Kári ánægður með karakterinn

Kári Jónsson lék einkar vel í fjórða leikhluta í kvöld.
Kári Jónsson lék einkar vel í fjórða leikhluta í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er mjög sáttur, mjög,“ sagði Kári Jónsson eftir 96:83-sigur Hauka gegn Stjörnunni í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Garðabæ í kvöld. Haukar eru í 4. sæti deildarinnar með 12 stig.

„Þetta var ekki okkar besti leikur í rúma þrjá leikhluta. Það vantaði svolítið mikið í okkur en við sýndum virkilega góðan karakter og ég er svakalega sáttur við það hvernig við kláruðum leikinn,“ sagði Kári.

Að öðrum ólöstuðum var frammistaða Kára í fjórða leikhluta helsta ástæða þess að Haukar stungu Stjörnuna þá af eftir að hafa verið að elta allan leikinn fram að því. 

„Mér fannst ég ekki búinn að gera mikið allan leikinn. Ég náði að setja körfur og svona og það var mjög mikilvægt,“ sagði Kári hógvær. Hann sagði að það væri mjög pirrandi að elta nánast allan leikinn og bætti við að Haukar gætu ekki vanið sig á spilamennsku eins og þeir sýndu lengst af í kvöld.

„Við getum miklu betur og sýndum í fjórða að við getum miklu betur. Þá börðumst við í vörninni, tókum fráköstin og þá kemur hitt í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert