Misstu af tækifærum til að stinga af

Hrafn Kristjánsson.
Hrafn Kristjánsson. mbl.is/Eggert

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir 96:83 tap hans manna á heimavelli gegn Haukum í 9. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Stjarnan er eftir leikinn í áttunda sæti með jafnmörg stig.

„Mér fannst við missa tvisvar sinnum tækifæri til að tryggja okkur leikinn. Bæði í lok annars leikhluta og svo í fjórða þegar við misstum niður flæðið og urðum hikandi og fórum að missa boltann svolítið,“ sagði Hrafn en hans menn voru með undirtökin allt fram í fjórða leikhluta.

„Við tökum ekkert af Haukunum, þeir eru lið sem er á góðum stað. Gott lið með mikið sjálfstraust og við náðum ekki alveg að hanga með þeim. Þegar við hefðum getað náð góðu forskoti í lok þriðja eða byrjun fjórða leikhluta þá hitti Jones hjá þeim úr hverju einasta skoti. Það munaði mikið um það þegar þeir tóku sinn sprett að við vorum ekki komnir með meira forskot,“ sagði Hrafn.

Þegar Haukar náðu forystunni í fjórða leikhluta var mikil stemning í þeirra herbúðum en Hrafn vill ekki meina að eitthvert stemningsleysi sé í herbúðum Stjörnunnar. „Það er nú bara þannig að þetta ræðst nú oft af því hvernig gengur hverju sinni,“ sagði Hrafn og bætti við að ef að hans menn hefðu tekið álíka sprett og Haukar í lokin hefði þessu líklega verið öfugt farið.

„Það vantar að stíga upp hjá okkur þegar á móti blæs. Ég held að maður vinni ekkert í þessu en að taka tvo, þrjá erfiða leiki og byggja þetta upp eftir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert