Ekki fallegt en við tökum það

Dagur Kár Jónsson skoraði sigurkörfu Grindavíkur í kvöld.
Dagur Kár Jónsson skoraði sigurkörfu Grindavíkur í kvöld.

„Það er frábært að fá tvö stig, það var ekki fallegt en við tökum það,“ sagði Dagur Kár Jónsson, hetja Grindavíkur, eftir 90:89-sigur á Valsmönnum á heimavelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Dagur skoraði sigurkörfu heimamanna nánast um leið og lokaflautan gall. 

Þrátt fyrir sigurinn var Dagur ekki sáttur við spilamennsku Grindavíkur.  

„Valsliðið var fast fyrir og settu pressu á okkur. Hausinn á okkur var ekki í lagi, við vorum að spila ömurlega vörn og við verðum að gera betur. Það var pressa á okkur, það er vænst miklu af okkur og við vorum búnir að tapa nokkrum í röð. Því var pressa á okkur að klára þennan leik og það var gott að sleppa svona.“

„Það var mikil barátta í lokin, ég hélt tvisvar, þrisvar að við værum að fara að klára þetta og þetta væri komið, svo töpum við boltanum í lokin en svo erum við góðir í vörn og þeir missa boltann og við náðum að klára hann.“

Hvernig upplifði Dagur sigurkörfuna? 

„Við vorum ekki með nein leikhlé og ég sagði mönnum hvert þeir áttu að fara og við vildum ná skoti á þessum fimm sekúndum. Ég náði góðu skoti í góðu jafnvægi og sem betur fer fór það ofan í.“

Grindavík tapaði þremur leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld og er Dagur að sjálfsögðu ánægður með að ná loksins í sigur. 

„Við kláruðum þennan leik og eigum Þór Ak. í næsta leik, ef við klárum hann verðum við í fínum málum fyrir jólin. Eftir jól snúum við þessu svo hressilega við,“ sagði Dagur Kár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert