Fyrsta fjórfalda tvennan í tæp átta ár

Kristen Denise McCarthy sækir að körfu Stjörnunnar.
Kristen Denise McCarthy sækir að körfu Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Kristen Denise McCarthy, leikmaður Snæfells, vann athyglisvert afrek á dögunum þegar Snæfell lagði Njarðvík að velli í Dominos-deildinni í körfuknattleik.

McCarthy náði þá fjórfaldri tvennu, sem þýðir að hún náði tveggja stafa tölu í fjórum þáttum leiksins. Samkvæmt upplýsingum á Wikipedia-síðu sem haldið er úti á íslensku um slík afrek er hún fjórða konan sem nær slíku í efstu deild á Íslandi. Var slíkt afrek síðast unnið í deildinni fyrir tæpum átta árum.

Fimm þættir leiksins geta komið til greina þegar leikmenn ná tvennu, hvort sem hún er tvöföld, þreföld, fjórföld eða fimmföld: stig, fráköst, stoðsendingar, varin skot og bolta náð/stolið. Fyrir góða leikmenn er vel gerlegt að ná tveggja stafa tölu í fyrstu þremur flokkunum en afar sjaldgæft er að leikmaður verji tíu skot eða steli boltanum tíu sinnum í sama meistaraflokksleiknum.

McCarthy skoraði 31 stig, tók 15 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal boltanum 12 sinnum gegn Njarðvík. Samkvæmt Wikipedia-síðunni afrekaði Penny Peppas slíkt fyrst í efstu deild hérlendis haustið 1996. Lék hún þá með Grindavík og fengu ÍR-ingar að kenna á snilli Peppas, sem vakti mikla athygli hérlendis um miðjan tíunda áratuginn.

Í millitíðinni hafa einnig náð fjórfaldri tvennu þær Reshea Bristol með Keflavík gegn Grindavík árið 2005 og Heather Ezell með Haukum gegn Val árið 2010.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert