„Gaman að mæta landsliðsmönnum”

Kevin Lewis fór fyrir Hetti gegn KR en það dugði ...
Kevin Lewis fór fyrir Hetti gegn KR en það dugði ekki til. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar KR lögðu Hött á Egilsstöðum í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld, en eftir hörkuleik munaði tíu stigum á liðunum í leikslok 91:81.

Höttur, sem ekki hefur unnið leik í vetur, var yfir að stigum stóran hluta leiks en mest var forskot þeirra 8 stig. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður með leik sinna manna þrátt fyrir tap.

„Við erum að bæta okkur í hlutum sem við erum að vinna í daglega og það skilaði okkur hörkuleik í dag. Það var bara erfitt fyrir okkur að klára þetta. Við hefðum þurft að fá dómgæsluna með okkur hérna í lokin frekar en á móti okkur,” sagði Viðar Örn.

Langstigahæsti leikmaður kvöldsins var erlendur leikmaður Hattar, Kevin Lewis en hann skoraði 32 stig. Þess að auki tók hann 10 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Aðspurður hvort öðruvísi stemning myndist í liðinu við að mæta Íslandsmeisturum sagði Viðar sína menn hafa verið spennta fyrir leiknum.

„Við höfum gaman af því að mæta þeim, fullt af landsliðsmönnum og svona. Við náðum upp góðri stemningu og spiluðum góðan leik – en við þurfum að fara að ná í sigra.”

Höttur situr á botni deildarinnar stigalaus. KR er í 4. sæti með 12 stig.

Óttaðist að leikurinn spilaðist eins og hann gerði

„Innst inni óttaðist ég að leikurinn í dag myndi spilast eins og hann gerði” sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, eftir sigurleikinn gegn Hetti á Egilsstöðum.

„Við höfum komið hérna í nokkur skipti og Hattarmenn hafa verið að gefa okkur erfiða leiki. Við teljum okkur vera sterkt lið en náðum aldrei flugi nema svona kafla og kafla.”

Höttur var yfir í hálfleik en í þeim síðari tóku Íslandsmeistararnir forskot sem þeir létu aldrei af hendi. Höttur var nálægt því að jafna á 36 mínútu þegar þeir komust í stöðuna 73:74 en KR hleypti þeim aldrei fram úr.

„Þó ég hafi verið ósáttur við liðið mitt á löngum köflum í leiknum þá áttum við samt hörku frammistöðu,” sagði Finnur Freyr.

Jalen Jenkins, annar erlendra leikmanna KR, og Jón Arnór Stefánsson spiluðu ekki með í dag en þeir eru báðir lykilmenn í liðinu. Finnur viðurkennir að hafa verið stressaður að fara inn í leikinn án þeirra.

„Þeir eru mikilvægir fyrir okkar og verið að skila mjög góðri vinnu fyrir okkur. Það er alltaf óþægilegt að missa þannig púsl. En það á auðvitað að vera þannig að þegar einhver dettur út þá stígur einhver annar upp. Það gekk kannski ekki alveg í byrjun en svo þegar leið á leikinn fóru menn að skila sínu og stíga betur upp.”

mbl.is