Haukar náðu fram hefndum

Helena Sverrisdóttir, Haukum, og Ivory Crawford, Breiðabliki, berjast um boltann ...
Helena Sverrisdóttir, Haukum, og Ivory Crawford, Breiðabliki, berjast um boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar náðu fram hefndum með 87:69 sigri gegn Breiðabliki í 12. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta á Ásvöllum í kvöld. Breiðablik var búið að vinna Hauka tvisvar í vetur, bæði í deild og bikar, en í kvöld höfðu Haukar mikla yfirburði frá fyrstu mínútu.

Breiðablik hefur komið á óvart í vetur og verið spútnik lið deildarinnar en Haukar tóku frumkvæðið strax á fyrstu mínútu og röðuðu niður körfum á meðan gestirnir voru sjálfum sér verstir og töpuðu boltanum í gríð og erg. Haukar voru með 10 stolna bolta í fyrri hálfleik.

Staðan var 45:28 í hálfleik og voru bestu menn liðanna að skila svipuðum tölum. Helena Sverrisdóttir var með 15 stig og níu fráköst fyrir Hauka og sú bandaríska í liði Breiðabliks, Ivory Crawford, var með 14 stig og níu fráköst. Munurinn á liðunum var sá að aðrir leikmenn Blika stigu ekki upp til að hjálpa.

Yfirburðir Hauka héldu áfram í seinni hálfleik og var orðinn 26 stiga munur á liðunum eftir þriðja leikhlutann. Þrátt fyrir stórt tap var Crawford stigahæst í leiknum með 33 stig en Helena var rétt á eftir með 26 stig og einnig heil 21 fráköst.

Með sigrinum fara Haukar í 14 stig og upp fyrir Stjörnuna í þriðja sæti deildarinnar. Blikar detta niður í 6. sætið og eru áfram með 12 stig.

Haukar 87:69 Breiðablik opna loka
99. mín. skorar
mbl.is