Þeir keyra gjörsamlega yfir okkur

Hannes Ingi Másson.
Hannes Ingi Másson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hannes Ingi Másson, leikmaður Tindastóls, var skiljanlega svekktur í leikslok á Króknum í kvöld eftir að heimamenn töpuðu fyrir Njarðvík, 100:93, í Dominos-deild karla í körfuknattleik.

„Við byrjuðum leikinn vel en fengum á okkur 30 stig sem er ekki nógu gott, við hefðum þurft að halda þeim í svona 20 stigum. Í öðrum leikhluta keyra þeir gjörsamlega yfir okkur og hittu úr öllum skotum en við spiluðum slæma vörn. Við fengum á okkur 60 stig í fyrri hálfleik sem er alltof slæmt en náðum að komast aðeins aftur inn í leikinn,“ sagði Hannes.

Næsti leikur Tindastóls er gegn ÍR í bikarnum.

„Við ætlum bara að koma brjálaðir í þann leik. Þetta er stærsti leikur tímabilsins hingað til, það er annað hvort að vinna eða þú ert bara úr leik svo við ætlum að reyna að taka þann leik,“ sagði Hannes Ingi Másson.

Frábær sókn en þarf að bæta vörnina

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var nokkuð sáttur með frammistöðuna en þó án efa mjög sáttur með stigin tvö.

„Við nálguðumst leikinn þannig að við ætluðum að fylgja leikskipulagi sem hefur vantað hjá okkur undanfarið. Við náðum að fylgja leikskipulaginu í þessar 40 mínútur, vorum alltaf með einhver verkfæri í kistunni þegar þeir breyttu varnarleiknum hjá sér,“ sagði Daníel.

Hefðirðu viljað að þínir menn gerðu eitthvað betur í leiknum í kvöld?

„Já, við þurfum að framkvæma varnarleikinn miklu betur. Tindastóll spilaði vel í kvöld og skoraði yfir 90 stig. Sóknarleikurinn okkar var frábær en við þurfum að spila betri vörn,“ sagði Daníel, en næsti leikur Njarðvíkur er gegn KR í bikarnum.

„Það er skemmtilegt að fá KR-ingana í heimsókn og þetta verður stór leikur og mikið undir. En við þurfum bara að halda áfram að bæta okkur og sjá hvað við getum gert,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson.

mbl.is