„Horfðum á boltann leka ofan í“

Berglind Gunnarsdóttir var hetja Snæfells í gærkvöldi.
Berglind Gunnarsdóttir var hetja Snæfells í gærkvöldi. mbl.is/Hanna

Keflavík, Njarðvík, Skallagrímur og Snæfell leika til úrslita í bikarkeppni kvenna í körfuknattleik þetta árið, Malt-bikarnum, en úrslitahelgin fer fram í Laugardalshöll 10.-14. janúar næstkomandi. Óvæntustu úrslitin má segja að hafi verið að neðstu lið deildarinnar Njarðvík og Snæfell komust bæði áfram eftir spennusigra.

Spennan var mikil í Stykkishólmi þegar Valur, topplið deildarinnar, heimsótti Snæfell en þar tryggði Berglind Gunnarsdóttir ótrúlegan sigur 75:73. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin, en Berglind fór yfir lokasóknina með Morgunblaðinu:

„Það voru 22 sekúndur eftir á klukkunni og jafnt. Við áttum boltann og stillum upp fyrir Kristen [McCarthy]. Hún fór af stað þegar um átta sekúndur voru eftir á klukkunni, þær spiluðu harða vörn á hana en hún náði að finna mig. Ég fór upp í skot og klikkaði á því, en náði sóknarfrákastinu og náði einhvern veginn að henda boltanum upp og datt í gólfið. Svo rúllaði hann á hringnum og við horfðum á boltann leka ofan í þegar leikklukkan rann út. Það var mjög, mjög sætt að sjá það,“ sagði Berglind hæstánægð, en Snæfell hafði verið undir í frákastabaráttunni í leiknum.

„Ég hafði ekki staðið mig vel í fráköstunum, svo ef ég ætlaði að taka eitthvert frákast í leiknum þá var það minnsta sem ég gat gert að taka eigið sóknarfrákast eftir að hafa klúðrað lokaskotinu. Hvað þá að koma boltanum ofan í á síðustu sekúndunni líka, á hárréttum tíma,“ sagði Berglind.

Nánar er fjallað um 8-liða úrslit bikarkeppninnar í körfuknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert