Fengum smá hárblásara í hálfleik

Pétur Rúnar Birgisson var stigahæsti leikmaður Tindastóls í sigri liðsins ...
Pétur Rúnar Birgisson var stigahæsti leikmaður Tindastóls í sigri liðsins gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum að spila vel í sóknarleiknum í fyrri hálfeik og það var ekkert út á það að setja. Vörnin var hins vegar ekki nógu þétt og Israel Martin lét okkur heyra það í hálfleik og bað okkur um að laga það,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson sem var stigahæstur í liði Tindastóls með 26 stig þegar liðið lagði Stjörnuna að velli, 86:80, í 11. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Það sást bersýnilega strax í upphafi þriðja leikhluta hvað við ætluðum okkur. Við byrjuðum seinni hálfleikinn af miklum krafti, þéttum vörnina og fengum auðveldar körfur í kjölfarið. Það er sætt að fara inn í jólafríið með tvö stig í farteskinu og að var á toppi deildarinnar þegar jólahátíðin gengur í garð,“ sagði Pétur Rúnar sem fór fyrir Tindastóli í endurkomu liðsins.

„Deildin hefur verið afar jöfn það sem af er vetri og það er þannig sem við viljum hafa það. Það geta öll lið unnið alla og það eru allir leikir spennandi. Við viljum halda okkur í toppsætinu fram á vorið. Það eru margir mikilvægir leikir framundan eftir áramót og við hlökkum mikið til þess að byrja aftur eftir áramót og berjast um þá titla sem í boði eru,“ sagði Pétur Rúnar um framhaldið hjá Tindastóli. 

mbl.is