Stutt á milli hláturs og gráts

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, fer yfir málin með leikmönnum sínum.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, fer yfir málin með leikmönnum sínum. mbl.is/Stella Andrea

„Við byrjuðum leikinn vel og vorum áræðnir í öllum okkar aðgerðum í fyrri hálfleik. Það var alveg vitað að sterkt lið eins Tindastól hefur á að skipa myndi gera sterkt áhlaup á okkur. Það gerist og því miður náðum við ekki að bregðast við því með nógu sterkum hætti,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 86:80-tap liðsins gegn Tindastóli í 11. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Við fórum inn í skel í smástund og urðum litlir í okkur. Það tók smástund að jafna okkur á sterkri byrjun Tindastóls í seinni hálfleik. Þetta var hins vegar jafn og spennandi leikur allt til enda og sigurinn hefði allt eins getað endað okkar megin. Það gerðist hins vegar ekki og það er afar svekkjandi,“ sagði Hrafn um spilamennsku sinna manna í leiknum í kvöld. 

„Þetta hefur svolítið verið saga okkar liðs í vetur að ná ekki að kreista fram sigra í jöfnum leikjum. Það eru nokkrir leikir sem svíða og við teljum okkur hafa getað gert betur í. Við erum þokkalega sáttir við frammistöðu okkar það sem af er vetri. Það er aftur á móti margt sem er hægt að bæta og við viljum enda ofar í töflunni, en staða okkar mun verða yfir jólahátíðin,“ sagði Hrafn um framhaldið hjá Stjörnunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert